139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Það er sannarlega hlutverk stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu að veita ríkisstjórn hverju sinni verðugt aðhald en um leið að starfa á uppbyggilegan hátt og bjóða þjóðinni upp á aðra stefnu, önnur úrræði en þau sem ríkisstjórnin markar. Þess vegna er sérlega dapurlegt að fylgjast með málatilbúnaði og málafylgju Sjálfstæðisflokksins í þessari vantraustsumræðu í dag. Í örvæntingarfullri tilraun til að þóknast svipuberanum við Rauðavatn, óreiðumanninum með greini, er nú borin fram vantrauststillaga á ríkisstjórnina á þröngum flokksforsendum Sjálfstæðisflokksins.

Ekki þarf að fjölyrða um viðskilnað Sjálfstæðisflokksins eftir nánast tveggja áratuga stjórn, stjórn sem kom landi og þjóð í slíkar ófærur að engin fordæmi eru fyrir öðru eins. Það rifjast upp brot úr kvæði Arnar Arnarsonar um Odd sterka þar sem hann kveður um pólitíkina fyrir um 80 árum og segir:

Íhald stýrði rangt og ragt,

rak af leið og skemmdi frakt.

Í skuldarkví var skútu lagt,

skömm er endi á heimskra makt.

Forseti. Þessi orð eiga sannarlega vel við um viðskilnað Sjálfstæðisflokksins.

Ég ætla svo sem ekki að dvelja við þann viðskilnað, það er svo ósköp niðurdrepandi. Það er nefnilega ekki fortíðin sem við eigum að einblína á nema til að læra af henni heldur verkefnin í núinu og framtíðinni. Enda þótt endurreisnin á efnahagssviðinu hafi verið hvað fyrirferðarmest í allri umræðu og vinnu, eins og þegar hefur verið bent á í umræðunni, fæst ríkisstjórnin og Alþingi við margvísleg mál á öðrum sviðum sem varða miklu til framtíðar.

Á sviði menntamála og umhverfismála er unnið að nýsköpun og framförum við þröngar fjárhagslegar aðstæður en margvíslegar endurbætur á löggjöf og réttindum ýmiss konar, vernd náttúrusvæða og lýðræðisvæðing kosta ekki alltaf mikil fjárútlát. Margvísleg löggjöf sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á sviði kvenfrelsismála og jafnréttismála eru atriði sem ég vil nefna sérstaklega, rammaáætlunin og fiskveiðistjórnarkerfið og endurskoðun þess eru mikilvæg verkefni á næstu mánuðum og missirum.

Það er ljóst að það hefur orðið efnahagslegur viðsnúningur, það er staðreynd sem ekki verður neitað. Við höfum séð verðbólguna á hraðri niðurleið. Við höfum séð stýrivextina lækka úr 18% niður í rúm 4%. Við höfum séð viðsnúning á ríkisfjármálunum, hallanum á ríkissjóði úr á þriðja hundrað milljörðum kr. árið 2008 niður í milli 30 og 40 milljarða á þessu ári og raunar jákvæðan frumjöfnuð.

Stöðugleiki í efnahagslífinu er tvímælalaust að komast á og allar mælingar benda til þess. Kjarasamningarnir sem nú standa yfir eru mikilvægt verkefni í þessu efni. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist á við risavaxið verkefni sem er að reisa Ísland úr rústum frjálshyggjunnar. Hrunið samfélag, brostnar vonir, löskuð sjálfsmynd þjóðar var heimanmundur Sjálfstæðisflokksins. Þann heimanmund viljum við ekki fá yfir okkur aftur.

Þjóðin þarf nú umfram allt að sameinast um þau brýnu og umfangsmiklu verkefni sem fram undan eru, hún þarf að sameinast um málafylgju fyrir íslenska hagsmuni í alþjóðasamfélaginu. Hún þarf að leggja í sameiningu grunn að nýjum grunngildum sem byggja á góðri norrænni velferð, jöfnuði, kvenfrelsi, umhverfisvernd, samvinnu og sáttum. Vantraust á ríkisstjórnina og sú pólitíska óvissa og upplausn sem slíku fylgir er ekki leiðin við núverandi aðstæður. Það getur hugsanlega þjónað hagsmunum einstakra pólitískra flokka um stundarsakir en allt slíkt verður nú að víkja. Hið stóra Ég verður að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar.

Við í þingliði ríkisstjórnarflokkanna fögnum öllum þeim sem vilja taka á ábyrgan og uppbyggilegan hátt þátt í endurmótun samfélagsins með okkur, leggja gott til á beinan og óbeinan hátt. Það væri nær fyrir forustu Sjálfstæðisflokksins að halda áfram á þeirri ábyrgu braut sem hún lagði inn á fyrir fáum vikum en hefur nú því miður verið hrakin af.

Málflutningur annarra minnihlutaflokka hér á þinginu er þrátt fyrir allt með öðrum brag enda þótt þeir hafi sitthvað við stefnu stjórnarinnar að athuga eins og gengur. Margt í þeirra málflutningi á þó fyllilega rétt á sér og gæti einmitt verið liður í að byggja þá breiðu samstöðu (Forseti hringir.) að sátt sem er svo brýn.

Góðir landsmenn. Þrátt fyrir boðaföllin verðum við að vera bjartsýn og þrautseig eins og íslensk þjóð hefur jafnan verið, ekki síst þegar á móti hefur blásið. Þannig skulum við (Forseti hringir.) ganga inn í vorið með þá vissu í farteskinu að við erum á réttri leið.