139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú þingsályktunartillögu um vantraust á hina fyrstu svokölluðu hreinu vinstri stjórn. Tillagan kemur fram vegna þess að stuðningur almennings hefur fjarað undan ríkisstjórninni. Sorgleg staðreynd sem allir vinstri menn hljóta að harma, ekki síst í ljósi þess mikla stuðnings sem Samfylkingin og Vinstri græn fengu í síðustu kosningum. Hvernig gat farið svona illa fyrir vinstri stjórn sem meiri hluti þjóðarinnar studdi ekki fyrir svo löngu síðan?

Herra forseti. Völd fóru að skipta meira máli en fólkið í landinu. Mál hafa verið keyrð í gegn af forustumönnum ríkisstjórnarinnar án samráðs við þingmenn og jafnvel í andstöðu við gefin loforð og meiri hluta þjóðarinnar. Nægir að nefna Icesave, AGS og ESB-aðildarumsóknina. Vinnubrögðin og stefnubreyting í grundvallarmálum er ástæða þess að við Atli Gíslason, hv. þingmaður, urðum viðskila við stjórnarmeirihlutann fyrir þremur vikum þrátt fyrir að eiga marga góða samherja innan þingflokks Vinstri grænna. Við lýstum þá yfir að við treystum okkur ekki lengur til að styðja skilyrðislaust núverandi ríkisstjórn og bera ábyrgð á efnahagsstefnu AGS sem breytir velferð í vexti, atvinnu í atvinnuleysi og skuldum í skuldaklafa. Forusta VG hefur beygt sig undir alþjóðaauðvaldið og frjálshyggjuöflin í Samfylkingunni.

Herra forseti. Nú þegar greiða á atkvæði um vantraust á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar reynir enn á ný á stuðning þingmanna VG sem ég kýs að kalla ærlegu deildina. Ærlega deildin lagði mikið á sig til að tryggja að Icesave-samningnum yrði hafnað án þess að lífi ríkisstjórnarinnar væri stofnað í hættu. Miklar pólitískar fórnir voru færðar til að ná þessu markmiði sem síðan varð til þess að kostnaður skattgreiðenda lækkaði a.m.k. um 200 milljarða í Icesave-samningnum nr. 3. Fórnir sem enn sér ekki fyrir endann á og komu síðast upp á yfirborðið þegar meiri hluti þingflokks Vinstri grænna setti hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur af sem þingflokksformann.

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa frá upphafi tengt saman Icesave og líf ríkisstjórnarinnar. Þessir forustumenn ríkisstjórnarinnar þrýstu á hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson að yfirgefa ríkisstjórnina vegna andstöðu sinnar við Icesave. Hæstv. forsætisráðherra hefur auk þess ítrekað nauðsyn þess að allir ráðherrar og stjórnarliðar gangi í takt við forustuna til að draga ekki úr trúverðugleika hennar. Nú hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur staðfest að forustumenn ríkisstjórnarinnar ganga ekki í takt við þjóðina. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hljóta því að hafa velt því fyrir sér hvort þau þurfi ekki að segja af sér til að bjarga trúverðugleika ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég tel að nú sé komið að forustumönnum ríkisstjórnarinnar að færa pólitískar fórnir til að bjarga lífi fyrstu vinstri stjórnarinnar, fórnir sem munu gera stjórnarflokkunum kleift að endurheimta traust almennings og sýna fram á að fólkið í landinu skiptir meira máli en völd.