139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:20]
Horfa

Helena Þ. Karlsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að við skulum fjalla hér í dag um vantrauststillögu á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er ekki það sem við þurfum á að halda um þessar mundir.

Þjóðin er klofin í tvennt eftir Icesave-þjóðaratkvæðagreiðsluna og að kljúfa hana enn frekar gerir ekkert gagn. Við verðum að standa saman og sameina þjóðina á ný en það verður ekki gert með vantrausti á ríkisstjórnina og nýjum kosningum með öllu því sem fylgir.

Stór og viðamikil verkefni eru fram undan og ef gengið yrði til kosninga nú yrði það eingöngu til að auka á efnahagslega óvissu og skapa upplausn í samfélaginu. Allt tal um að snúa bökum saman og tala máli Íslands einum rómi í alþjóðasamfélaginu yrði hjóm eitt. Þingrof og kosningar eru ekki þau skilaboð sem við viljum senda alþjóðasamfélaginu sem við eigum svo mikið undir einmitt núna. Það mundi rýra traust á Íslandi, íslensku þjóðinni, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum stjórnvöldum sem þrátt fyrir allt reyna allt sem hægt er til að takmarka það tjón sem efnahagskreppan 2008 hefur valdið með öllum sínum afleiðingum. Þingrof og kosningar mundu líka setja viðræðurnar við Evrópusambandið í uppnám en því máli þarf að ljúka og leggja í dóm kjósenda ef viðunandi samningur fæst.

Ég sagði í upphafi að mér fyndist með ólíkindum að vera að fjalla um vantraust á ríkisstjórnina á þessum tímapunkti. Í mínum huga er tillaga sú sem er til umfjöllunar sýndarmennska ein og aðeins fallin til þess að breiða yfir innri vanda Sjálfstæðisflokksins og formanns hans. Það er í raun aumkunarvert að Sjálfstæðisflokkurinn, sem aldrei hefur viljað þjóðaratkvæðagreiðslur, hafi nú notað niðurstöðu Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að slá ryki í augu eigin flokksmanna í þeim eina tilgangi að breiða yfir veika stöðu sína, innbyrðis deilur og mikla valdabaráttu.

Virðulegi forseti. Ég treysti okkur jafnaðarmönnum best til að leiða okkur áfram í þeirri efnahagslegu endurreisn sem við erum í. Við höfum annað við tímann að gera en að karpa um hvort ríkisstjórnin eiga að vera eða víkja. Fólkið í landinu er orðið leitt á karpi. Það vill kraft í atvinnuuppbyggingu til að skapa hagvöxt, við vinnum okkur ekki út úr kreppunni nema með auknum hagvexti, fjölgun starfa og þar með minna atvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég gera orð Lars Christensens, forstöðumanns greiningardeildar Den Danske Bank, að mínum, að við eigum að hætta að rífast innbyrðis, að við eigum að horfa fram á veginn og vera bjartsýnni og jákvæðari.