139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:23]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Með virðingu fyrir hv. varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, væri hægt að óska eftir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram um vantrauststillögu þeirra flokks? (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Er hægt að gera ráðstafanir til þess að það verði a.m.k. einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins viðstaddur í salnum þegar við ræðum tillögu frá þeim um að fella ríkisstjórnina? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Í áramótaskaupinu sem sýnt var fyrir rétt rúmum þremur mánuðum var sungið lítið lag sem fangaði svolítið tíðarandann sem verið hefur í samfélagi okkar síðustu mánuði og missiri. Þetta var lag þar sem textinn er svona:

Neitum því sem vert er að neita

og byrjum að breyta.

Við skulum varpa því versta

og virkja okkar besta.

Þetta vakti athygli. Ég heyrði á fólki að sumum hefði vöknað um augu við að heyra þennan texta og sjálfur verð ég að viðurkenna það að hann hreyfði við mér vegna þess að við erum svo fá í þessu landi og við megum svo illa við því að vera sundruð um svo langa tíð eins og við höfum verið og klofin í jafnafdrifaríkum málum og við höfum verið að fást við að undanförnu.

Þess vegna var ég mjög ánægður með afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins í Icesave — og það væri óskandi að einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins væri hér í salnum — að láta svo greinilega þjóðarhagsmuni ganga framar öllu öðru í Icesave-málinu, ganga framar hefðbundinni skotgrafapólitík á Alþingi. Þess vegna varð ég svo ósáttur við forseta Íslands að hann skyldi ákveða að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að mér fannst hann misskilja svo herfilega það sem þjóðinni var fyrir bestu. Hann klauf þjóðina í herðar niður til þess að bjarga eigin skinni. Þeir sem börðust harðast fyrir nei-inu í Icesave eru menn á borð við ritstjóra Morgunblaðsins sem ber mesta ábyrgð á hruninu og gerði það til þess að bjarga eigin skinni og koma ríkisstjórninni frá og að því er virðist til að koma forustu Sjálfstæðisflokksins frá. Vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins er viðbrögð við hatrömmum innanflokksátökum, því miður, tilraun til að forða forustu flokksins frá vantrausti innan flokks. Hún er viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins við hörðum viðbrögðum innan flokks við þá þverpólitísku samstöðu sem hann sýndi í Icesave-málinu og var lofsvert. Hann hefur látið undan þrýstingi fortíðaraflanna og flytur nú vantrauststillögu á ríkisstjórnina til þess að bjarga eigin skinni.

Uppgjörið sem fram þarf að fara í samfélaginu snýr ekki að einstaklingum hvort heldur sem þeir eru forseti Íslands eða fyrrverandi forsætisráðherra eða þeir sem sitja hér á þingi. Það mun ekki eiga sér stað við kosningar til Alþingis. Það mun þá fyrst eiga sér stað þegar við endurskoðum stjórnmálamenninguna, hvernig við tölum saman, hvernig við vinnum saman, hvernig við komumst að niðurstöðu. Það veltur á því að taka upp ný vinnubrögð í ákvarðanatöku. Við þurfum stjórnmálamenningu sem felur í sér að fólk hlusti á hvert annað, taki rökum og fari þær leiðir sem mest sátt næst um.

Ég hef um langa hríð verið mikill ástríðulesandi að ævisögum stjórnmálamanna og það er niðurstaða mín, eftir því sem mér sýnist, að þeir séu því merkilegri stjórnmálamennirnir eftir því sem þeir eru tilbúnari til þess að koma að borðinu með ómótaða skoðun, tilbúnir til að hlusta á rök með og á móti og finna þá leið sem mest sátt getur náðst um, en þeir hafi verið verstir sem voru með öll svörin fyrir fram og voru algjörlega óhagganlegir í afstöðu sinni. Það er sú stjórnmálamenning sem við þurfum á að halda, ekki þann skotagrafahernað sem við erum því miður komin í í þessum sal enn einu sinni.

Ég er ekki að segja að stjórnarandstaðan eigi að láta af stjórnarandstöðu og að stjórnarmeirihlutinn eigi að láta stjórnarandstöðunni eftir að stýra landinu. En það hlýtur að vera hlutverk stjórnarandstöðunnar ef borin er fram vantrauststillaga og það er meining á bak við að bjóða almenningi upp á raunhæfan valkost, eitthvað annað en ríkjandi öfl. Mér hefur ekki sýnst stjórnarandstaðan bjóða upp á raunhæfan valkost við stjórn landsins. Framsóknarmenn eru formanni Sjálfstæðisflokksins sárreiðir fyrir vantrauststillöguna sem borin var einhliða fram af Sjálfstæðisflokknum á meðan formaður Framsóknarflokksins var í útlöndum. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Sjálfstæðisflokkurinn er rótklofinn og átökin opinber og fyrir allra augun. Er það valkosturinn sem þjóðinni stendur til boða núna á þessum tímamótum?

Það er sorglegt að horfa upp á það hér að þingmenn Hreyfingarinnar, sem ég hef átt um margt ágætt samstarf við á yfirstandandi þingi, skuli dansa hér við trommuleik Sjálfstæðisflokksins. Og það er sorglegra en tárum taki að horfa upp á hv. þingmenn Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur sem hafa ekki fengist til þess að horfa á möguleikana til breytinga sem næstu tvö ár fela í sér en vilja þess í stað hætta á að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn taki aftur við stjórn landsins. Hvað ætla þau að segja við kjósendur sína þá?

Nú hillir undir að kreppan sé senn á enda. Næstu tvö ár verða betri en þau sem á undan fóru og ég skora á stjórnarandstöðuna að vinna áfram á þeim nótum sem formaður Sjálfstæðisflokksins hóf þetta ár á, að vinna með okkur (Forseti hringir.) frekar en á móti.