139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Sú umræða sem hefur átt sér stað um það hvort núverandi ríkisstjórn sé starfhæf eða ekki hefur örugglega tekið á sig nokkuð sérkennilega mynd hjá þeim sem hafa reynt að fylgjast með. Hér hafa menn heilt yfir ekki verið að tala um framtíðina heldur aðallega um fortíðina og ég held að orðið Sjálfstæðisflokkurinn sé eitt aðalumræðuefnið. Það sýnir kannski málefnafátækt hjá ríkisstjórninni þegar aðalpúðrið fer í það að ræða um fortíðina og ræða um þá aðila sem báru tillöguna fram frekar en standa fyrir máli sínu með framtíðarhugsjónir.

Á Íslandi eru 15 þúsund manns án atvinnu, 15 þúsund. Fimm þúsund þeirra hafa verið atvinnulaus í meira en ár og kannanir sýna að stærstur hluti þessara einstaklinga mun trúlega ekki snúa aftur inn á vinnumarkaðinn. Við erum að horfa á grafalvarlegt ástand í íslensku samfélagi og þess vegna finnst mér umræðan dálítið undarleg. Veruleikinn sem við lifum í virðist blasa ansi ólíkt við okkur mörgum.

Ég trúði varla mínum eigin eyrum þegar ég heyrði forsætisráðherrann guma sig af því að árangur ríkisstjórnarinnar í málefnum skuldugra heimila og fyrirtækja jaðraði við það að vera kraftaverk. Í hvaða veruleika lifum við þegar það blasir við okkur, og öllum sem vilja sjá það, að ríkisstjórnin hefur gersamlega klúðrað málefnum skuldugra heimila með aðgerðum sínum. Ég held að þetta ágæta fólk ætti þá að fara að tala við kjósendur sína um það hvort almenn ánægja sé með þann frumskóg sem blasir við fólki sem er að leita sér úrlausna í gegnum það flókna kerfi sem skapað hefur verið.

Annað mál, hin svokallaða Beina braut, það átti að klára það fyrir mitt þetta ár. Það kom fram á fundi viðskiptanefndar um daginn hjá Viðskiptaráði að ef hraðinn á endurskipulagningu á skuldum lítilla og meðalstórra fyrirtækja yrði áfram eins og nú er mundi það verkefni klárast árið 2050. Þetta er hraðinn og þetta er verkstjórn núverandi ríkisstjórnar. Maður veltir því fyrir sér, eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. forsætisráðherra, hver skilaboðin hafi verið frá leiðtoga þjóðarinnar. Var það herkvaðning til landsmanna um að við skyldum takast á við framtíðina af áræðni, kjarki og þori með bjartsýni að leiðarljósi? Kom fram framtíðarsýn hjá þessum leiðtoga þjóðarinnar? Nei, þessi ræða var uppfull af hræðsluáróðri. Ef ég fæ ekki að stýra þessu landi og einhverjir aðrir komast að þá skellur hér á dimmur vetur. Það er með ólíkindum að þurfa að hlusta á ræðu sem þessa þegar ástandið er jafngrafalvarlegt í íslensku samfélagi og raun ber vitni.

Hvar er framtíðarsýnin? Hæstv. forsætisráðherra á eftir að koma upp einu sinni. Ég bið hana í síðustu ræðu sinni í dag að koma með einhverja framtíðarsýn fyrir þjóðina. Hafi þjóðin einhvern tíma þurft á leiðtoga að halda sem hefur einhverja raunverulega framtíðarsýn þá er það á tímum eins og nú. Við þurfum ekki á leiðtoga að halda sem málar veruleikann allt öðrum litum en allir aðrir í samfélaginu. (Gripið fram í.)

Síðan kemur Samfylkingin og segir að ef framsóknarmenn ætli að voga sér að samþykkja vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnina séu þeir pólitískt uppfyllingarefni. Þvílíkt innlegg í málefnalega umræðu hér. Við framsóknarmenn höfum verið einna harðastir í gagnrýni okkar á ríkisstjórnina þegar kemur að skuldamálum heimilanna; og eigum við að ræða Icesave-málið eitthvað? Ég held ekki. Við skulum sleppa því núna. Hv. stjórnarliðar koma hingað upp með það ódýra trix að segja að ef þingmenn Framsóknarflokksins ætli sér að samþykkja vantraust á ríkisstjórnina séu þeir pólitískt uppfyllingarefni. Þvílíkur málflutningur.

Við framsóknarmenn vorum að koma af glæsilegu flokksþingi þar sem við vorum í málefnavinnu og horfðum til framtíðar og þá sérstaklega í atvinnumálum þjóðarinnar. Eftir að hafa farið í mikla greiningu á tækifærum íslensks atvinnulífs er framtíðin björt. Við þurfum að búa fyrirtækjunum þá umgjörð að þau geti blómstrað. Horfum á sjávarútveginn, horfum á iðnaðinn og horfum á ferðaþjónustuna. Starfsumhverfi þessara atvinnugreina hefur ekki verið eins gott um árabil. Horfum á hugverkaiðnaðinn. Glæsileg fyrirtæki eins og Marel, CCP og fleiri sem hafa blómstrað á undangengnum árum en því miður hefur íslenska menntakerfið ekki getað sinnt þörfum þessa atvinnulífs og það þarf að breyta skattumhverfi þessara fyrirtækja.

Horfum til landbúnaðarins. Þar eru gríðarleg tækifæri. Ég hef ekki tíma til að fara yfir þær tillögur sem við samþykktum á þingi framsóknarmanna um helgina en hægt er að nálgast það á heimasíðu flokksins, framsokn.is. Þar er alla vega hægt að sjá sýn stjórnmálaflokks til framtíðar. Við höfum lagt fram sýn um það hvernig á næstu árum megi fjölga störfum í samfélaginu um 12 þúsund, varlega áætlað. Tækifærin eru til staðar og við þurfum að fá ríkisstjórn til valda sem talar í lausnum, talar fyrir framtíðina, talar kjark í fólkið í landinu en er ekki með endalausan hræðsluáróður um það að ef hún missi völdin í landinu þá fari allt fjandans til. Veruleikinn er einfaldlega ekki þannig.

Við skulum rifja upp orð eins og gagnsæi, skjaldborg um skuldug heimili, réttlæti, samráð og ný vinnubrögð. Allt voru þetta slagorð hjá þingmönnum og frambjóðendum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í aðdraganda síðustu kosninga. Ég held að ef hv. þingmenn mundu flytja þessar ræður í dag yrði hreinlega hlegið í salnum vegna þess að ef við horfum til Icesave-málsins þá hefur allt það sem ég nefndi snúist í andhverfu sína. Nú þurfum við á því að halda, og ekki síst íslenska þjóðin, að þeim sandkassaleik sem verið hefur hér undangengnar vikur, mánuði, og í að verða tvö ár, ljúki. Það þarf samstöðu, við þurfum stefnu í atvinnumálum, við þurfum að fjölga atvinnutækifærum hér á landi. Þannig aukum við tekjur ríkissjóðs, þannig fækkum við atvinnulausum og þannig getum við stutt við öflugt velferðar- og menntakerfi.

Við verðum að komast upp úr því hjólfari sem hér er. Ég ætla að lýsa því yfir, og það má þá kalla mig öllum illum nöfnum, að ég mun ekki styðja þessa ríkisstjórn í þessari atkvæðagreiðslu ef einhverjum hefur dottið það í hug. Við höfum gagnrýnt ráðaleysi og rangar leiðir sem ríkisstjórnin hefur farið á undangengnum tveimur árum. Af hverju í ósköpunum ætti þingflokkur framsóknarmanna, eða að minnsta kosti sá sem hér stendur, að styðja áframhaldandi verklag af þessu tagi? Ég segi því já við þessari tillögu, sama hvaðan hún kemur. Við þurfum að fara að innleiða ný vinnubrögð, við þurfum að fara í atvinnusköpun því að annars mun okkur illa farnast.

Ég vil ljúka ræðu minni á því að segja það að framtíðin er björt ef við nýtum tækifærin (Forseti hringir.) og sköpum íslensku atvinnulífi það umhverfi sem það á skilið. Þannig fjölgum við störfum í samfélaginu. Ég vona að innan skamms (Forseti hringir.) munum við sjá ríkisstjórn sem mun hrinda þessum áformum í framkvæmd.