139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég lýsi því yfir að stjórnarandstaðan er ekki gersamlega vonlaus. Ég lýsi því yfir að ég held að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gæti vel rekið pylsusjoppu þannig að jafnvel yrði af henni hagnaður. Ég spyr mig bara að því, hvað eiga svona orð að þýða eins og hér voru flutt áðan?

Það líður senn að lokum þessarar umræðu og ég veit svo sem ekki hvort við erum miklu nær en að mörgu leyti er ágætt að fá hana og fyrir báða aðila. Stjórnarandstaðan er að sjálfsögðu í fullum rétti að bera fram vantraust á ríkisstjórn hvenær sem henni sýnist. Ég geri engar athugasemdir við að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi forustu um slíkt.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er almennt málefnalegur og hann hefur sýnt það að honum er eðlislægt ef annað stjórnar ekki för að taka ábyrga afstöðu til mála. Ég vil segja um formann Sjálfstæðisflokksins að hann vil ég sem samstarfsmann tíu sinnum frekar en þá sem nú sækja að honum innan hans eigin flokks. Hvort framlagning þessarar vantrauststillögu hefur hins vegar styrkt stöðu hans er annað mál.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að við séum hrædd við Sjálfstæðisflokkinn. Ég segi við hv. þm. Bjarna Benediktsson svipað og maðurinn sagði á ísnum forðum: Skammt hef ég runnið fyrir þér. Það er ekki þannig. Ef ég væri hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn þá væri ég hræddur við sjálfan mig. Það er ágætt að hreinsa andrúmsloftið og gott fyrir ríkisstjórnina líka að hafa það á hreinu að hún hafi tilskilinn meiri hluta í hinum klassíska skilningi þess orðs, að hún sé varin vantrausti ef það er borið upp á hana. Það er líka gott fyrir félagshyggjufólk, umhverfisverndarsinna, kvenfrelsisfólk og vinstri menn almennt í þessu landi að hafa það á hreinu hvaða fulltrúa það á hér á þingi sem eru tilbúnir til að standa saman og deila byrðunum af erfiðu verkefni og gefast ekki upp og hlaupast ekki undan skyldum á þeirri ábyrgð sem við tókum að okkur að veita forustu um að koma landinu út úr rústunum sem hægri menn skildu eftir sig.

Svo má líka spyrja: Er stjórnarandstaðan tilbúin? Væri ekki hyggilegt fyrir þá kappana, hv. þm. Bjarna Benediktsson og hv. garp Sigmund Davíð Gunnlaugsson, að doka aðeins við að leyfa okkur að glíma við erfiðleikana svolítið lengur? Þeir geta hvenær sem er komið og sagt, þegar það er orðið sýnilegra og ausljósara að við erum að ná vopnum okkar: Nú get ég. Ég svona mæli með því að þeir bíði aðeins. Ég er ekki viss um að þeir séu menn í brækurnar enn þá nema það sé það sem hér er á ferðinni, frú forseti, að stjórnarandstaðan, og ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn, sér auðvitað það sem allir sjá að Ísland er á réttri leið, að hér er hagvöxtur genginn í garð, að þetta er farið að ganga betur og nú liggur á að koma stjórninni frá áður en það verður betur skráð í bókhaldið. Það skyldi nú ekki vera.

Staðreyndin er sú, forseti, að það er óhrekjanlegt að Ísland er komið út úr mestu erfiðleikunum og yfir því eigum við að gleðjast (Gripið fram í.) og snúa bökum saman um að tryggja að framhaldið verði farsælt.