139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Hér tek ég þátt í gjörningnum Þéttum raðir stjórnarliða.

Hvernig má skapa traust í brotnu samfélagi okkar? Ég held að vantraustsyfirlýsing sett fram af vanhugsun og sérhagsmunum sé ekki til þess fallin. Ég á í engum erfiðleikum eða vandræðum með að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina og meðan ég er að því vil ég nota tækifærið og lýsa yfir vantrausti á Sjálfstæðisflokkinn.

Forseti. Ég skora á þing og þjóð að fylkja sér um samfélagssáttmála okkar sem mun endurspeglast í tillögum stjórnlagaráðs. Ég skora á okkur öll að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja alvöruuppstokkun á kerfinu og beita okkur fyrir réttlætismálum eins og afnámi verðtryggingar, segja skilið við AGS, upptöku nýs gjaldmiðils og setja fram alvörutölur um lágmarksframfærslu og fylgja þeim tillögum. Kreppan er nefnilega rétt að byrja. Ekki er hægt að réttlæta að halda áfram á þeirri braut sem við erum nú.

Forseti. Ríkisstjórnin heldur sennilega velli og hún mun halda áfram þeirri vegferð sem hún hefur verið á síðan hún tók við þessu erfiða búi. Ljóst er að ekki mun líða á löngu þar til önnur vantrauststillaga verður borin fram nema ríkisstjórnin hafi dug og þor til að stokka upp hjá sér. Því legg ég til og mæli með að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra segi af sér.

Ég mæli ekki með þingrofi. Ég mæli ekki með að þingrof verði samþykkt því það er einfaldlega sett til höfuðs stjórnarskrárbreytingum og almennum lýðræðisumbótum sem og umbótum á kvótakerfinu.

Já, frú forseti. Ég er með óbragð í munninum þar sem ég stend frammi fyrir þeim valkostum að ef ég sit hjá styð ég núverandi ástand og ef ég samþykki vantraust tek ég þátt í örvæntingarfullum leikþætti formanns Sjálfstæðisflokksins. Hvorugur kosturinn er mér ásættanlegur. Því höfum við farið fram á að atkvæðagreiðslunni um vantraust verði skipt í tvennt. Kosið verði um vantraust sérstaklega og síðan um þingrofið 11. maí. Utanþingsstjórn gæti verið langskynsamlegasti kosturinn ef svo ólíklega vill til að vantrauststillagan verði samþykkt. En þingrof er eðlilegra í samhengi við þjóðaratkvæðagreiðslur um stjórnarskrárbreytingar. Þingrof er alls ekki tímabært núna.