139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:37]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa sagt í dag og röktu mjög ítarlega, verðbólga hefur hjaðnað, vextir hafa lækkað, gengið er orðið stöðugra og mikið hefur verið unnið á halla ríkissjóðs. Þetta er allt saman árangur af prógrammi sem var skrifað undir haustið 2008 af Sjálfstæðisflokknum [Hlátur í þingsal.] og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það sem meira er, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti hér upp skrifstofu til að fylgja þessu prógrammi nákvæmlega eftir og það hefur verið slegið miskunnarlaust á putta vinstri stjórnarinnar ef hún hefur ætlað sér að víkja frá því. Verkefni ríkisstjórnarinnar hafa verið skuldavandi heimilanna, atvinnuleysi, fjárfestingar, skattar, að koma af stað hagvexti og afnema gjaldeyrishöft. Í öllum (Forseti hringir.) þessum atriðum hefur ríkisstjórnin brugðist.

Ég segi já.