139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:40]
Horfa

Víðir Smári Petersen (S):

Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur klúðrað nánast öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Tvisvar hefur hún klúðrað Icesave-málinu og stjórnlagaþing hæstv. forsætisráðherra var úrskurðað ógilt. Þau mál sem hún hefur leitt til lykta hafa hins vegar einungis leitt til verri lífskjara fyrir fólkið í landinu. Skattar eru komnir upp úr öllu valdi og þeim sem meira hafa á milli handanna er hótað stríðsskatti sem minnir frekar á eignaupptöku en skattlagningu.

Þetta er jafnframt ríkisstjórn forræðishyggju. Nú er svo komið að enginn virðist mega gera neitt nema með leyfi hæstv. fjármálaráðherra og þessi ríkisstjórn treystir ekki nokkrum manni til að lifa eigin lífi. Þjóðin treystir hins vegar ekki þessari ríkisstjórn lengur, tími hennar er úti og hann kom í raun aldrei. Það er mér því sannur heiður að koma í dag á þing sem varaþingmaður til að greiða atkvæði með vantrausti á þessa ríkisstjórn því að verri ríkisstjórn er varla hægt að hugsa sér. (Gripið fram í: Jú, jú.) [Hlátur í þingsal.] Þjóðin (Forseti hringir.) og þá sérstaklega ungt fólk á betra skilið.

Því segi ég já.