139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég ætla í þessari atkvæðagreiðslu að greiða þessu máli atkvæði samkvæmt efni málsins en ekki hvaðan það kemur. Það er gamaldagspólitík hér, sérstaklega í ræðum stjórnarliða, að innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins eru oftar nefnd en hagsmunir fólksins í landinu. (Gripið fram í.) Þetta er gamaldagspólitík að mínu viti. Ég ætla að rökstyðja mitt mál.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur er varða skuldamál heimilanna í landinu, fyrirtækjanna í landinu. Við höfum tvisvar sinnum lagt fram efnahagstillögur og það hefur ekkert verið á þær hlustað.

Á kröftugu flokksþingi okkar um síðustu helgi lögðum við fram beinskeytta stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Hæstv. forsætisráðherra gaf ekki mikinn ádrátt um að á hana yrði hlustað. Ég er í pólitík til að hafa áhrif, koma góðum málum áfram. Með þessari ríkisstjórn náum við framsóknarmenn ekki að koma mikilvægum áformum okkar og stefnumálum í framkvæmd. (Forseti hringir.)

Þess vegna segi ég já við þessari tillögu.