139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er óaðskiljanlegur hluti tillögu okkar um vantraust á ríkisstjórnina að gengið verði til kosninga vegna þess að við viljum að þjóðin fái að kjósa um framtíðina. Árið 2009 var kosið um fortíðina.

Nú er það svo að í umræðu um kosningar hefur stjórnarliðum og reyndar sumum í stjórnarandstöðu orðið mjög tíðrætt um stöðu Sjálfstæðisflokksins. En er það ekki augljóst að ef þeim sem hæst hafa talað um vonda stöðu Sjálfstæðisflokksins, um slæma fortíð hans, um allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa á samviskunni, væri alvara mundi þetta sama fólk fagna því að fá kosningar?

Staðreynd málsins er sú að það fólk sem mest hefur talað um Sjálfstæðisflokkinn trúir ekki einu einasta orði sem það sjálft hefur viðhaft í ræðustól. Það skín í gegnum málflutninginn að það gengur út frá því að eftir kosningar taki Sjálfstæðisflokkurinn við. Ég verð reyndar að lýsa furðu minni á (Forseti hringir.) því að hv. þingmenn Hreyfingarinnar þykist ekki styðja þessa tillögu (Forseti hringir.) vegna þess að þeir sækja einmitt (Forseti hringir.) vald sitt til kjósenda og hafa alltaf lagt á það áherslu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.) [Kliður í þingsal.]