139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég styð ekki þingrof. Ríkisstjórnin hefur nú staðið af sér vantrauststillöguna þannig að líka af þeim ástæðum er ekkert sem mælir með þingrofi. Þó að ríkisstjórnin hefði fallið hefði ég samt ekki stutt þingrof. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég tel að það komi ekki til greina að kalla pólitískan óstöðugleika yfir landið. [Kliður í þingsal.] Það þarf að efla hér pólitískan stöðugleika og það verður ekki gert með þingkosningum. (Gripið fram í: Nú?) Það var kosið árið 2007 og það var kosið árið 2009. Það eru ekki tvö ár síðan var kosið. Á að kjósa aftur? Ég segi nei.

Það er miklu nærtækara að raða upp nýrri ríkisstjórn eins og ég fór yfir í fyrri útskýringu minni. Þess vegna segi ég nei við þessari tillögu. Við þau tímamót sem hér hafa orðið í kvöld er mjög brýnt að við snúum bökum saman á þessari samkundu og komum (Forseti hringir.) þessu samfélagi áfram. Förum upp úr þeim skotgröfum sem hér hafa verið allt of djúpar. (BirgJ: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]

Ég segi nei. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]