139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

kjarasamningar og fjárfestingar í atvinnulífinu.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það var sjálfgefið að hugmyndir um orkuframkvæmdir mundu byggjast á viðskiptalegum forsendum. En hæstv. forsætisráðherra svarar dálítið út og suður varðandi hvaða mál eru nákvæmlega uppi á borðinu í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins. Hún vísar í Norðausturland og Suðvesturland og tekur það fram að Helguvík sé ekki í höndum ríkisstjórnarinnar. Reyndar hefur öllum verið ljóst að ríkisstjórnin hefur verið að þvælast alveg sérstaklega fyrir þar með yfirlýsingum um möguleikann á þjóðnýtingu eða eignarnámi þeirra fjárfestinga sem eru þar forsenda.

Ég ítreka spurningu mína varðandi Neðri-Þjórsá: Er Neðri-Þjórsá á dagskránni og uppi á borðum í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins? Telur forsætisráðherra það koma til greina og vera hluta af samkomulaginu við aðila vinnumarkaðarins að greiða fyrir framkvæmdum í Neðri-Þjórsá?