139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[10:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Ég held að það sé einmitt ágætt að setja málin í þetta samhengi af því að menn hafa einatt látið svo í þingsal að það þurfi að vaða í umdeildar virkjanir og umdeilda virkjunarkosti til að koma svokölluðum hjólum atvinnulífsins af stað. Svo er ekki. Það eru töluverðir kostir til í dæminu og sumir þeirra hafa m.a.s. gengið í gegnum bæði umhverfismat og skipulag, og jafnvel framkvæmdaleyfi eins og um er að ræða í Hellisheiðarvirkjun. Við erum að ræða þarna um stækkun Hellisheiðarvirkjunar, við erum að tala um Hverahlíðarvirkjun, við erum að tala um Búðarháls sem liggur fyrir. Enn þá liggja fyrir áform um aflaukningu Reykjanesvirkjunar. Það hefur að vísu ekki klárast að því er varðar leyfisveitingu frá Orkustofnun. Síðan eru áformin í Þingeyjarsýslum sem auðvitað þarf að taka tillit til og taka mið af sameiginlegu umhverfismati að því er varðar tillit til umhverfisáhrifa. Þar undir er ekki Gjástykki.

Í þessari tölu sem iðnaðarráðherra fór yfir í gær er ekki Gjástykki og þar eru heldur ekki virkjunaráform í neðri hluta Þjórsár og ég held að menn eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ættu að vera með okkur í því að horfast í augu við þá ánægjulegu staðreynd að það eru töluverðir virkjunarkostir til án þess að við þurfum að fara í stríð við þjóðina. Það er mikilvægt þegar við erum að byggja upp atvinnu til framtíðar að við látum af ófriðar- og ágreiningsstefnunni sem stóriðjuflokkarnir ráku hér árum og áratugum saman og förum í að vinna þetta samstiga. Og það gerum við m.a. í gegnum rammaáætlun. Ég vænti þess að hv. þingmaður sjái aðrar leiðir en að fara í Norðlingaölduveitu, Gjástykki og neðri hluta Þjórsár.