139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

uppbygging orkufreks iðnaðar.

[10:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætt svar. Hæstv. ráðherra taldi upp virkjunarkosti sem nema um 250 megavöttum fyrir utan Þeistareykjasvæðið sem gæti gefið — ég veit ekki hvað það gefur mikið, það er mjög á reiki.

Það er eitt sem ég tók eftir að hæstv. ráðherra taldi ekkert upp af svæðum í ágreiningi, eins og neðri hluta Þjórsár og Norðlingaölduveitu sem eru einna hagkvæmustu virkjunarkostir sem völ er á samkvæmt rammaáætlun, hún nefndi ekki Torfajökulssvæðið. Þar er væntanlega sú orka sem vantar upp á þessa upptalningu hjá ráðherranum. Því var sem sagt ekki neitað að fara ætti á (Forseti hringir.) Torfajökulssvæðið þannig að ég hefði gaman af því að heyra hæstv. ráðherra fylgja aðeins eftir þessari upptalningu (Forseti hringir.) og segja hvaðan nákvæmlega öll þessi 700 megavött eiga að koma. (Forseti hringir.) Hún er búin að telja upp 250.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að virða tímamörk.)