139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Beina brautin.

[10:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að á vettvangi ráðuneytis hans sé af fullri alvöru verið að vinna í þessum málum. Ég er sammála þeim áherslum að Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið stilli saman strengi sína því að við lærðum það af hruninu að kínamúrarnir voru því miður ekki í fjármálakerfinu heldur í hinni opinberu stjórnsýslu. Það er gott að verið er að brjóta þá niður.

Ég vil samt kalla eftir því við ráðherra að mögulegum tækjum verði beitt, að það verði ekki bara íhugað heldur verði eins fljótt og auðið er settar þær reglur sem fyrirtækin þurfa að fylgja þannig að það svíði undan fari þau ekki að boðvaldi opinberra yfirvalda.