139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[11:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um afar mikilvægt og merkilegt mál sem hefur átt sér langan aðdraganda. Það snýst um tvennt, annars vegar það að í ákvörðunum um verndun og nýtingu náttúrusvæða sé upplýsing og fagmennska lögð til grundvallar en ekki síður að jafnvægi sé á milli sjónarmiða um orkunýtingu auðlinda okkar annars vegar og hins vegar náttúruverndar. Þannig hefur það ekki verið í samfélagi okkar, að jafnvægi væri milli þessara sjónarmiða, og því fagna ég því sérstaklega að fulltrúar allra flokka hafi náð samstöðu um að afgreiða málið með þessum hætti. Það vekur okkur vonir um að við náum okkur upp úr þeim erfiða átakafarvegi sem atvinnumál á Íslandi hafa allt of lengi verið í.