139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[11:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar er ekki tillögugóður maður að þessu sinni. Það frumvarp sem við ræðum hér hefur fengið mikla umfjöllun í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og um það hefur skapast allvíðtæk samstaða, meðal annars hjá hagsmunaaðilum.

Breytingartillaga hv. þm. Helga Hjörvars er við alls óskylt efni og mundi hafa í för með sér mjög mikla röskun á stöðu afurðasölu fyrirtækja landbúnaðarins. Það er mjög háskalegt þess vegna að samþykkja breytingartillögu hv. þingmanns. Ég tel hins vegar að við eigum að reyna að fylkja okkur um það mál eins og það er að öðru leyti lagt hér fram með þeim breytingartillögum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur lagt til til þess að auka frelsi og gagnsæi í landbúnaðinum án þess að kollvarpa því kerfi eða þeim rekstrarmöguleikum sem eru til staðar hjá afurðastöðvum landbúnaðarins.