139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[12:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu og furða mig á því af hverju ég fæ ekki tvær mínútur eins og forseti lofaði að ég fengi. Mér þykir þetta hið undarlegasta mál. En nú er ég búinn að fá tvær mínúturnar mínar og …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á þessu. Klukkan er eitthvað að stríða okkur þarna í borðinu. Að sjálfsögðu fær hv. þingmaður tvær mínútur eins og forseti lofaði.)

Já, takk fyrir það, virðulegi forseti.

Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þetta mál. En eftir að ég er búinn að lesa mér aðeins til um frumvarpið og athugasemdir og heyra mál hæstv. ráðherra vil ég fara þess á leit við hæstv. ráðherra að hann fari aðeins yfir hvar þetta mundi helst koma niður, eða hvaða áhrif þetta mundi hafa. Áherslan í frumvarpinu er fyrst og fremst á það hvað á að vera undanskilið. Þegar maður rennir svona í gegnum það — ja, það kemur svo sem ekkert sérstakt upp í hugann, manni sýnist nú að búið sé að taka fyrir flesta þætti. Það er markmið laganna að greiða fyrir frjálsum þjónustuviðskiptum og tryggja jafnvægi þeirra sem veita þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins en viðhalda jafnframt hágæðaþjónustu. Þjónusta í almannaþágu er síðan undanskilin, fjármálaþjónustan er undanskilin, rafræn fjarskiptaþjónusta og fjarskiptanet eru undanskilin, starfsmannaleigur, heilbrigðisþjónusta, hljóð- og myndmiðlunarþjónusta, fjárhættuspil, félagsþjónusta, öryggisþjónusta, starfsemi í tengslum við meðferð opinbers valds, þjónusta lögbókenda og fulltrúa sýslumanna og ýmislegt fleira. Það væri því fróðlegt að vita hvað er þarna inni. Ef við samþykkjum þetta óbreytt hvar mun hinn venjulegi Íslendingur þá finna þess stað?