139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[12:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar.

Í grunninn er það svo að í þeim tilvikum þar sem um er að ræða samkeppnisrekstur sem ríkið er í á ríkið að lúta sömu lögmálum og viðkomandi þjónustuveitendur lúta, þ.e. almennum markaðslögmálum, og um það gildir bann við ríkisstyrkjum. Um samkeppnisrekstur sem sannanlega er samkeppnisrekstur og ekki með neinum hætti falinn opinberum aðilum eiga að gilda sömu reglur, hvort sem hann er rekinn af ríkinu eða einkaaðilum. Síðan eru tilvik, út frá hugmyndafræðinni um þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, þar sem hægt er að veita aðilum á markaði, hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða ekki, tiltekin sérréttindi gegn því að þeir vinni að ákveðnum verkefnum í almannaþágu, sinni einhverri þjónustu. Rökstuðningur fyrir tilvist Íbúðalánasjóðs hefur t.d. byggst á því að Íbúðalánasjóður láni með öðrum hætti og á öðrum forsendum og hafi önnur sjónarmið að leiðarljósi í lánveitingum en almennur banki við sambærilegar aðstæður mundi gera. Út frá slíkum skilgreiningum er hægt að veita einhver sérréttindi eða forréttindi og þau verða hins vegar að verða sem endurgjald fyrir þau sérstöku verkefni sem viðkomandi þjónustuveitandi veitir.

Þetta er svona almenna svarið við þessari almennu fyrirspurn.