139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[13:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að ég hef ekki áhyggjur af því að þetta muni breyta þeim markmiðum sem þingið hafði í huga með því að setja grein inn í lögin um að hér bæri að stofna sérstakt félag heldur er með þessu verið að svara ákveðnum athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Norðmenn hafa fengið sams konar ákúrur frá sömu eftirlitsstofnun, að ekki þurfi að skrá sérstakt félag heldur dugi að vera með starfsemi, útibú eða dótturfélag.

Hvað varðar seinni þáttinn eru engar grundvallarbreytingar á honum í frumvarpinu, það hefur ekki breyst. Eitt af markmiðum breytinganna sem við gerðum, og ég og hv. þingmaður áttum hlutdeild í árið 2008 ef ég man rétt, var auðvitað að fjármunir sem fengjust fyrir leyfin færu til að efla þekkingu á þessari starfsemi innan lands. Þau markmið hafa svo sannarlega ekki breyst. Við höfum verið að vinna með Norðlendingum og jafnvel austar en á Akureyri, á Norðausturlandi, að því hvernig við getum útfært það. Það er vissulega eitthvað sem ég tel að þingið eigi að koma að og mun án efa gera það þegar — ja vonandi, við skulum vera bjartsýn, ég og hv. þingmaður — þessir fjármunir skila sér inn og við getum gert þetta að atvinnuskapandi starfsemi hér á landi. Þó að langt sé í það, því miður, þá vitum við það engu að síður, ég og hv. þingmaður, að tíminn líður hratt. Ekki eru nema þrjú ár síðan við gerðum þessar breytingar á lögunum í góðri sátt, ég hélt áðan að það væru tvö ár, þannig að svona getur nú tíminn flogið. Hann mun gera það í þessu efni.