139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[13:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna er vísað í breytingar á lögum út af skattlagningunni sem hv. þingmaður fór yfir áðan. Það eru kannski þær stóru breytingar sem koma fram samhliða þessu eða fyrir næsta útboð. Það er því um að ræða þetta tvennt, frumvarpið sem hér er og skattlagningarfrumvarp fjármálaráðherra þar sem skattumhverfið er gert samkeppnishæfara miðað við það norska og verið að líkja töluvert eftir því. Við fengum verulega gagnrýni á skattkerfið síðast af því að það þótti framþungt og þar af leiðandi var erfitt að byrja þessa leit okkar megin á Drekasvæðinu. Okkur þóttu þessar breytingar eðlilegar, ekki síst í ljósi þess að Norðmenn eru farnir fyrir alvöru að horfa til þess að fara á stað á svæðinu. Við erum komin í rannsóknasamstarf og samstarf á ýmsum sviðum með Norðmönnum og það skiptir máli fyrir okkur, ef við ætlum ekki að verða undir í útboðunum okkar megin línunnar, að við séum samkeppnishæf. Það er í raun og veru markmiðið með öllum þessum breytingum. Við höfum átt mjög náið og gott samstarf með Norðmönnum.

Hvað varðar rannsóknaþáttinn er markmiðið algjörlega skýrt og hefur ekkert breyst frá því að iðnaðarnefnd var algerlega einróma í þessu máli fyrir þremur árum, að mig minnir. Ekkert hefur breyst í því, við viljum stuðla að því með lagasetningu að sem mestar tekjur komi hingað inn og við viljum byggja upp sem mesta þekkingu á þessum iðnaði hér á landi. Síðan er það væntanlega Alþingis, þegar við förum að sjá árangur þessa erfiðis, þegar við sjáum árangur leiðangursins sem við erum núna að leggja upp í, að skoða hvernig við komum þessum rannsóknum fyrir. Þá tel ég eðlilegt að horfa til byggðasjónarmiða eins og hv. þingmenn báðir hafa gert hér í andsvörum.