139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir það sem fram kom í andsvari hennar, sem svör við spurningum mínum, hvað varðar frekara og meira samstarf við Norðmenn um olíuleit á Drekasvæðinu. Ég fagna því sérstaklega sem ráðherra setur hér fram, þ.e. að hún sé opin fyrir öllum möguleikum hvað það varðar að þróa þetta samstarf áfram og til næstu þátta, það góða samstarf sem átt hefur sér stað undanfarið, sem þetta frumvarp er meðal annars afrakstur af.

Það er ákaflega mikilvægt, svo að ég taki heils hugar undir það, og það geta siðaðar þjóðir gert í samningum sín á milli, að það sé þannig að arður okkar og tekjur séu sem mestar, að við hámörkum þær, það er grundvallaratriði. Það sem ég er einfaldlega að segja, og blandast mest inn í þetta, er að Norðmenn, þessi mikla olíuleitarþjóð, með alla sína þekkingu, fyrirtæki, borpalla og annað — ég tel einfaldlega mjög hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga að ganga til samstarfs við þá um næstu skref og ég fagna því, sem fram kemur í yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra, að það verði þróað áfram. Hvort sem það verður eftir fimm ár eða sjö, tíu ár eða fimmtán, er ég sannfærður um að hér á Alþingi mun einhvern tímann koma fram frumvarp sem verður um samstarfssamning við Norðmenn um frekari leit, borun og vinnslu á olíu á þessu svæði.