139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:15]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði að við gerum þetta á jafnræðisgrunni enda mikið af jafnaðarmönnum bæði í Noregi og á Íslandi, góð hefð fyrir jafnaðarmennsku í báðum löndum.

Hæstv. ráðherra fjallaði um hagsmuni okkar og hagsmuni Norðmanna, sem eru svo samtvinnaðir á þessu svæði og blandast saman. Ég var hér í þingsal þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi, frekar en þingsályktunartillögu, um samning við Norðmenn út af, eins og mig minnir að það heiti, markalínum svæðanna, sem þarna er fjallað um. Það má því segja að hæstv. ríkisstjórn sé að vinna að þessu máli á öllum vígstöðvum og fagna ég því sérstaklega.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að hika ekki við að halda því fram, sem ég sagði hér áðan, að langhagkvæmast fyrir okkur, þessa litlu þjóð, sem eigum þessa miklu auðlind, sem þarna bíður okkar, er að vera í mikilli samvinnu og samstarfi við Norðmenn, það mun skila okkur mestum arði og mestum tekjum í komandi framtíð.