139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir framsöguna. Verið er að taka á þeim málum sem hafa verið efst á baugi í samfélaginu varðandi auðlindanýtingu og nýtingarrétt. Hér er verið að stytta nýtingartímann samkvæmt vatnalögum niður í 40 ár úr 65 árum og um auðlindir í jörðu niður í 30 ár.

Ráðherra kom inn á að lögin væru að sjálfsögðu ekki afturvirk og giltu því ekki um samninga þá sem Magma hefur gert nú þegar. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvers vegna ekki sé tekið mið af því samkomulagi sem var gert varðandi fiskveiðistjórnarkerfið þar sem hæfilegur nýtingarréttur var talinn vera 20 ár. Hvers vegna er ekki reynt að samhæfa þetta með einhverjum hætti auðlindanýtingu hér á landi varðandi árafjölda til þeirra aðila sem nota auðlindirnar og borga gjald fyrir?