139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staldra dálítið við þetta svar hæstv. ráðherra. Hvaða rök eru fyrir því að markaður ráði því ekki að þá geti verið styttri tími í vatnsafli og jarðhita eins og til að mynda í sjávarútvegi? Mér finnst það dálítið skrýtið og bið hæstv. ráðherra að færa fyrir því frekari rök.

Hæstv. ráðherra sagði að tíminn þyrfti að vera styttri en 20 ár. Ég hefði viljað fá frekari útskýringar hjá hæstv. ráðherra um hvað hann teldi temmilegan tíma.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri sér grein fyrir því hvað það kostar að smíða eitt stykki togara. Það kostar marga milljarða, 5–7 milljarða. Telur hæstv. ráðherra að það verði mikil framþróun í íslenskum sjávarútvegi sem þarf að keppa á alþjóðamörkuðum? Hvaða augum lítur t.d. hæstv. ráðherra það hvort hægt væri að fjármagna 7 milljarða togara á styttri tíma en 20 árum? Er það skoðun hæstv. ráðherra að það beri að afskrifa svona dýr tæki á mjög stuttum tíma?

Ég kalla líka eftir útskýringu á því af hverju þetta markaðslögmál sem hæstv. ráðherra segir sinn flokk tala fyrir gildir ekki alveg eins um sjávarútveginn og um orkunýtinguna?