139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vantraust á stjórnsýsluna? Nei, ég tel svo ekki vera. Klausan um allt að 65 ár var málamiðlun á sínum tíma sem aldrei hefur náðst almennileg sátt um. Ég tel að við getum haft í lögum okkar sambærilegan árafjölda eins og aðrar þjóðir sem nýta sambærilegar auðlindir.

Virðulegi forseti. Einn samningur hefur verið gerður á grundvelli þessara laga, þ.e. til 65 ára, frá því að þau tóku gildi og hann nýtti þennan ramma að fullu auk þess sem þau gengu að mínu mati lengra en lögin heimiluðu og andi laganna kvað á um. Ég gerði við það formlega athugasemd með bréfi til Reykjanesbæjar og bæjarstjórnar þar vegna þess að þar var gert ráð fyrir framlengingu um önnur 65 ár. Sá samningur er að mínu mati á gráu svæði. Hann fullnýtti rammann og gott betur. Ég held að það sé best fyrir okkur öll til að skapa sáttaumgjörð utan um þá nýtingu að við förum með leigutímann (Forseti hringir.) í árafjölda sem betri samstaða getur náðst um en 65 ár. Þessi starfsgrein þarf á friði að halda.