139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti má taka undir það að í frumvarpinu felist ákveðið vantraust á stjórnvöld, fyrst menn eru að negla niður alls kyns hluti í lagatexta sem maður hefði fyrir fram haldið að þættu sjálfsagðir, að minnsta kosti ef maður gefur sér að þeir sem eiga eftir að starfa eftir lögunum vilji gæta hagsmuna lands og þjóðar.

Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns þá er alveg skýr munur á ríki og þjóð. Ríki er lögpersóna sem getur átt réttindi og borið skyldur, ef við tölum lögfræðimál, en það getur þjóð ekki. Þjóð er, að minnsta kosti lagalega, óskilgreindari hópur manna sem á eitthvað sameiginlegt, eins og tungu, landsvæði og fleira slíkt. En í eignarréttarlegum skilningi er munurinn alveg skýr. Hann er sá að ríki getur átt eign og verið handhafi eignarréttar í hefðbundnum skilningi þess hugtaks, en það getur þjóð ekki verið. Sigurður Líndal hefur fjallað ágætlega um þetta, að þjóð sem slík geti ekki átt neitt. Þegar menn eru að tala um eignarhald þjóðar á tilteknum réttindum væri nær að tala um eign ríkisins á þeim réttindum en ekki þjóðarinnar sem slíkrar, vegna þess að ríki getur þá selt eða varðveitt þessa eign, veðsett hana og beitt þeim heimildum sem eignarrétturinn felur því, en það getur þjóð ekki gert.