139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka lögfræðingnum fyrir skemmtilega útlistun á muninum á ríki og þjóð, ég hef alltaf litið á þjóð sem hóp af einstaklingum og íslenska þjóð sem hóp af einstaklingum sem búa á Íslandi svona viðvarandi. Mér finnst umræðan nefnilega villast í þessu.

Ríki getur verið andstæðingur þjóðarinnar. Sumum finnst jafnvel að skattlagning sé orðin of mikil vegna þess að öðrum megin er ríki, sem skattleggur, og hinum megin eru einstaklingar, sem mynda þjóð. Ég hef því alltaf miklar efasemdir um það þegar menn fara að keyra mál eins og þetta í gegn á þeim grundvelli að þeir séu að gæta hagsmuna einhvers hugtaks sem heitir þjóð. Umræðan snýst um það að menn séu að gæta auðlinda þjóðarinnar og hugtökin auðlind og þjóð eru ekki skilgreind.

Mér finnst gott að fá frá hv. þingmanni ákveðna staðfestingu á því að frumvarpið sé vantraust á stjórnsýsluna, vantraust á hæstv. ráðherra, vantraust á hæstv. ríkisstjórn — menn treysta því ekki að hún gæti hagsmuna þjóðarinnar í einhverjum skilningi, treysta því ekki að ríkið gæti hagsmuna þjóðarinnar. Það er kannski að gefnu tilefni í sambandi við Icesave þar sem mörgum sýndist að ríkið gætti ekki hagsmuna þjóðarinnar eða hefði einhver önnur sjónarmið í huga.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið.