139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:20]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu get ég tekið undir það með hv. þingmanni að í þessu frumvarpi felist að vissu leyti vantraust á stjórnvöld, en það felur líka í sér vantrú á aðra en stjórnvöld, t.d. einkaaðila og sveitarfélög. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að með frumvarpinu er verið að þrengja heimildir ríkis og sveitarfélaga til að leigja frá sér eða afsala sér tímabundið réttindum sem það hefur. Það er verið að setja þeim rétti þrengri skorður og í því felst ákveðið vantraust á þeim sem eiga réttindin eða bera skyldurnar og hins vegar á þeim sem eiga að nýta þær. Það er alveg augljóst mál. Þeir sem tala fyrir því að stytta leigutímann bera ekki fullkomið traust til þeirra sem fá réttindin með leigusamningi.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að ríki getur sannarlega verið andstæðingur þjóðarinnar. Það á ekki bara við þegar um ofurskattheimtu er að ræða, heldur þekkjum við það í mannkynssögunni að fjölmörg dæmi eru um það hversu illa ríkisvaldið hefur beitt sér gagnvart sínum eigin borgurum.

Ég minni á það sem ég sagði hér áðan um ríki og þjóð og kröfuna um þjóðareign á auðlindum í tengslum við þetta frumvarp sem varðar nýtingu og meðferð á jarðvarma og vatnsréttindum — það er mikilvægt að menn átti sig á því að ríki og sveitarfélög eiga nú þegar langstærstan hluta þessara réttinda og hafa verið að auka sinn hlut í því sambandi. Þar spila þjóðlendumálin langstærstu rulluna. Þegar menn tala um mikilvægi þess að þjóðin eigi auðlindir landsins, (Forseti hringir.) er það nú bara þannig að ríkið er helsti eigandi vatns- og jarðvarmaréttinda á Íslandi.