139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[15:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frumvarpi til laga um breyting á lögum um Byggðastofnun. Þar er lagt til að stjórnarmönnum í Byggðastofnun verði fækkað úr sjö í fimm. Öll stjórnin er nú skipuð af iðnaðarráðherra án tilnefningar en það er þó hefð fyrir því að ráðherra hafi samráð við aðra stjórnmálaflokka á þingi við skipun stjórnarinnar. Farið hefur verið vandlega yfir starfsemina að undanförnu og með tilliti til umfangs stofnunarinnar, verkefna hennar og stjórnarinnar og líka í samanburði við aðrar lánastofnanir standa ekki rök til þess að sjö menn sitji í stjórninni. Það verður að telja að bæði megi ná fram bættri skilvirkni í störfum stjórnarinnar og lækkun rekstrarkostnaður við þá fækkun sem lögð er til og að nýta megi þá féð til annarrar starfsemi tengt atvinnuþróun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta en geri ráð fyrir að iðnaðarnefnd muni fjalla um málið. Ég mælist svo til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.