139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[15:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð mjög hissa þegar ég sá þetta frumvarp komið hér inn og sem áherslumál frá iðnaðarráðuneytinu að reyna enn og aftur að fara í gegn með breytingar á Byggðastofnun, reyna smám saman að kroppa í stofnunina, reyna smám saman að ná innan úr henni því sem mestu skiptir inn í iðnaðarráðuneytið. Hversu oft erum við búin að sjá það og í mörg ár að reynt sé að leggja niður eða eyðileggja þessa stofnun af hálfu þessa ráðuneytis? Það er eiginlega orðið of oft, ég verð að segja það, frú forseti. Nú á að fara þá leið og gefið er í skyn að það sé vegna þess að það sé hagkvæmara eða eitthvað slíkt að fækka í stjórn stofnunarinnar. Það er eins og menn í því ráðuneyti sem sýslar með þetta geri sér enga grein fyrir því hvert hlutverk þessarar stofnunar er. Það er mjög mikilvægt að stjórn stofnunarinnar sé fjölmenn og hún endurspegli eins mikið af landsbyggðinni og hægt er. Það er jú hlutverk þessarar stofnunar að vera byggðastofnun. Því kemur mjög á óvart að þessi leið skuli vera farin núna en það kemur hins vegar ekki á óvart að það sé vilji til þess í ráðuneytinu að fara þá leið. Það hef ég oft sé og oft hafa sveitarstjórnarmenn og landsbyggðarmenn þurft að taka slaginn við ráðuneytið.

Ef menn ætla að ræða hér um vanda Byggðastofnunar er þetta ekki sá vandi. Vandinn er fyrst og fremst stefnuleysi stjórnvalda í byggðamálum. Stofnun eins og Byggðastofnun verður að vita í hvaða umhverfi hún vinnur og geta horft til framtíðar.

Ég spyr því ráðherra: Er það virkilega svo að ráðherra vilji halda því til streitu að ná þessu (Forseti hringir.) vitlausa frumvarpi í gegn fyrir sumarið?