139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um réttindagæslu fatlaðs fólks.

Frumvarp þetta er lagt fram samkvæmt fyrirmælum í ákvæði XI til bráðabirgða í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Frumvarpið byggir á tillögu starfshóps sem skipaður var af félags- og tryggingamálaráðherra til að gera tillögur um réttindagæslu fatlaðs fólks og skoða þvingun og valdbeitingu gagnvart fötluðu fólki. Í starfshópnum voru auk fulltrúa ráðherra fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Velferðarráðuneytið vann að undirbúningi frumvarpsins í samstarfi við fyrrgreind heildarsamtök fatlaðs fólks og Samband íslenskra sveitarfélaga. Eftir ítarlega skoðun var það niðurstaða vinnuhópsins að rétt væri að fresta gerð þess hluta frumvarpsins sem varðar nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk. Þar sem hér er um að ræða mjög viðkvæmt svið sem varðar mannréttindi fatlaðra einstaklinga þarf að vanda mjög til lagasetningar varðandi þvingunaraðgerðir sem kann að þurfa að beita og taldi hópurinn því að meiri tíma þyrfti til að undirbúa slík ákvæði.

Í frumvarpinu er því lagt til að sett verði ákvæði um réttindavakt fatlaðs fólks, trúnaðarmenn og persónulega talsmenn. Gert er ráð fyrir að í haust verði lagt fram frumvarp sem hefur að geyma ákvæði um aðgerðir til að draga úr nauðung í vinnu með fötluðu fólki.

Í frumvarpi þessu er lagt til að réttindagæsla fatlaðs fólks verði þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að innan ráðuneytisins verði starfandi réttindavakt sem hafi eftirlit með að réttindi fatlaðs fólks séu virt. Réttindavaktinni er meðal annars ætlað að hafa yfirumsjón með réttindamálum fatlaðs fólks og sjá um fræðslu og útgáfu fræðsluefnis um réttindamál fatlaðra.

Í öðru lagi er að finna í frumvarpinu ákvæði um svæðisbundna trúnaðarmenn fatlaðs fólks. Lagt er til að ákvæðið um trúnaðarmenn verði fellt út úr lögum um málefni fatlaðs fólks og haft með öðrum ákvæðum um réttindagæslu fatlaðs fólks. Sú breyting er lögð til á núverandi skipulagi að trúnaðarmenn verði ráðnir í tiltekið starfshlutfall að fenginni umsögn heildarsamtaka fatlaðs fólks og teljist starfsmenn ráðuneytisins þótt þeir séu staðsettir í þeim landshluta sem þeir starfa. Trúnaðarmönnum er ætlað að vera fötluðu fólki innan handar við hvers konar réttindagæslu, en ákvæði þau sem lögð eru hér til eru talsvert ítarlegri en núgildandi ákvæði. Lagðar eru auknar skyldur á trúnaðarmenn, enda er gert ráð fyrir að þeir verði ráðnir í að minnsta kosti hálft starf. Gert er ráð fyrir að þeir aðstoði fatlað fólk sem til þeirra leitar auk þess sem þeir geta tekið mál upp að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum einhvers sem telur brotið á fötluðum einstaklingi.

Það má geta þess að í tengslum við þetta ákvæði um trúnaðarmenn var á grundvelli eldri laganna sett reglugerð um trúnaðarmenn fatlaðs fólks til að mæta þessu tímabundna ástandi þar sem auglýst var eftir fólki til að sinna þessu starfi til eins árs, en þar með þeim viðbótum sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi um fjölda þeirra sem sinna þessu verkefni og menntun og kröfur til þeirra.

Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að fatlaðir einstaklingar, sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að gæta réttar síns sjálfir eða sjá um sín persónulegu málefni, skuli eiga rétt á persónulegum talsmanni, en slíkt úrræði hefur ekki staðið þeim til boða áður. Þar er gert ráð fyrir að fatlaður einstaklingur, sem óskar eftir persónulegum talsmanni, velji sér talsmann og trúnaðarmaður staðfesti það val. Skulu þeir gera með sér skriflegt samkomulag um aðstoðina. Þar skal meðal annars koma fram um hvers konar aðstoð verði að ræða og hvort og að hvaða marki hún nær til meðferðar fjármuna hins fatlaða einstaklings.

Hlutverk persónulegs talsmanns fatlaðs einstaklings er í fyrsta lagi að aðstoða hann við að gæta réttar síns þannig að hann njóti alltaf þeirrar þjónustu sem hann þarf og á rétt á. Sérstaklega er kveðið á um það í frumvarpinu að sé fyrirhugað að gera verulegar breytingar á þjónustu sem hinn fatlaði einstaklingur nýtur skuli veitandi þjónustunnar kalla til persónulegan talsmann viðkomandi. Í annan stað skal persónulegur talsmaður aðstoða hinn fatlaða einstakling við að taka sjálfstæðar ákvarðanir um persónuleg málefni, t.d. varðandi val á búsetu, atvinnu og tómstundum og varðandi læknisþjónustu og aðgerðir.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að fatlaður einstaklingur geti falið persónulegum talsmanni sínum að sjá um greiðslur daglegra útgjalda og skulu greiðslur þá inntar af hendi með reiðufé af sérgreindum reikningi. Heimild til slíks þarf að koma fram í samkomulagi fatlaðs einstaklings og persónulegs talsmanns. Persónulegur talsmaður getur ekki stofnað til fjárhagsskuldbindinga fyrir fatlaðan einstakling nema á grundvelli sérstaks skriflegs umboðs þess efnis.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Með samþykkt þess verður fötluðum einstaklingum tryggð nauðsynleg aðstoð við að gæta réttinda sinna og sjálfstæðis við að taka ákvarðanir um persónuleg mál, svo sem búsetu, atvinnu eða tómstundir; aðstoðin við ákvarðanir af því tagi verður betur tryggð. Samþykkt frumvarpsins mun því fela í sér mikla réttarbót fyrir fatlaða einstaklinga.

Ég leyfi mér því að leggja til, hæstv. forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félags- og tryggingmálanefndar og 2. umr.