139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna framlagningu þessa frumvarps. Það er orðin brýn þörf á því að leysa úr réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem var dálítið rædd hér í sambandi við flutning málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaganna. En þá varð þessi hluti að vissu leyti eftir.

Hins vegar rekast sjónarmið á. Ég vil að hv. félagsmálanefnd sem ég starfa í vinni málið vandlega og nákvæmlega og fái umsagnir frá þeim aðilum sem það varðar og því skiptir verulegu máli að lagasetningin verði vönduð þar sem hún fjallar um réttindagæslu fyrir hóp fólks sem er mjög viðkvæmur í þjóðfélaginu. Þessi sjónarmið rekast á. Ég held að við ættum að taka okkur tíma þó að liggi á því að afgreiða málið.

Formaður nefndarinnar talaði áðan um það sem þyrfti fyrst og fremst að gera og ég mun vinna eins og ég mögulega get með nefndarformanni að því. Það þarf að senda málið til umsagnar, gefa til þess hæfilegan tíma, fá gesti við fyrsta tækifæri og ræða málið út í hörgul með félagasamtökum sem starfa að málefninu og þeim aðilum sem þekkja til málefna fatlaðs fólks.

Ég get ekki annað en fagnað frumvarpinu. Ég vildi kannski spyrja örlítið ef hæstv. ráðherra kæmi á eftir um hvernig notendastýrðri þjónustu væri háttað við fatlað fólk og hvort hún væri í þessum pakka.