139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel í sjálfu sér enga ástæðu til að fara í lokaræðu. Ég held að málið sé í góðum farvegi og afar góðum höndum vegna þess að þetta mál er í rauninni til komið vegna breytinga sem félags- og tryggingamálanefnd gerði á frumvarpinu um yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Hún tók fyrir skýrslu sem hafði verið unnin um réttindagæsluna með hugmyndum sem aðilar þeirra félaga sem véla hvað mest um málefni fatlaðs fólks höfði lagt fram. Það var því að frumkvæði þeirrar ágætu nefndar að málið kom inn á borð til okkar. Ég fagna því innilega.

Hv. þingmaður spyr um notendastýrða þjónustu. Það er einmitt verið að fara að stað með starfshóp sem fer í útfærslu á þeim hugmyndum sem koma fram í frumvarpinu. Það er búið að skipa hann þannig að það er bara spurning um daga hvenær sá hópur fer í gang. Þar munum við fara í nánari útfærslu á þessu. Þar eru bæði fulltrúar frá ráðuneytinu og viðkomandi hagsmunasamtökum. Við þurfum að fylgja því eftir að unnið verði með skipulegum hætti við að taka upp þá þjónustu og líka að gerð verði athugun á því með hvaða hætti henni sé best fyrirkomið.

Ég vil taka undir þær þakkir sem hafa verið fluttar hér til nefndarmanna í hv. félags- og tryggingamálanefnd. Það hefur verið einstaklega gott að hafa nefndina. Hún hefur bókstaflega tekið upp mál, bætt þau, lagfært og komið með eigin hugmyndir og verið í góðu samstarfi við ráðuneytið sem ég held að skipti mjög miklu máli og notendur þjónustunnar.

Eitt til viðbótar áður en ég hætti. Einn af þeim þáttum sem þarf að fylgja vel eftir og tengist þessum málum er að byggja upp eftirlit með þjónustunni og gera það sjálfstætt þannig að sá sem sér um eftirlitið sé ekki sá sem veitir þjónustuna eða sá sem ákveður með hvaða hætti hún sé veitt, þ.e. ráðuneytið sjálft. Verið er að vinna að skipulagi til að finna því stað í stjórnsýslunni og svolítið hefur verið horft til landlæknisembættisins og hvort það eigi (Forseti hringir.) heima þar undir.