139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru allt saman meðsvör en ekki andsvör. Manni er dálítill vandi á höndum að svara. En það er rétt að samstarfið hefur verið afskaplega gott í félags- og tryggingamálanefnd nokkuð lengi. Þar hefur verið unnið mjög mikið að mörgum málum sem horfa til bóta. Ég held að fólk þurfi að gera sér grein fyrir því að þó að út á við sé myndin af Alþingi þannig að hér mætist stálin stinn þá er miklu meira um það í einstökum nefndum að menn vinni þar saman að sameiginlegum lausnum sem koma öllum til góða. Það finnst mér vera gert í hv. félags- og tryggingamálanefnd og þakka það.