139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

starfsmannaleigur.

729. mál
[16:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum. Frumvarpið er lagt fram í kjölfar athugasemda sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við tiltekin ákvæði laganna og er breytingunni ætlað að koma til móts við þær kröfur.

Stofnunin hafði áður gert athugasemd við sambærileg ákvæði í lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og var orðið við þeim athugasemdum með breytingum á þeim lögum. Þær breytingar voru gerðar í fyrra. Þess vegna er eðlilegt að reyna að samræma þetta í þessum tveimur lagabálkum.

Lagabreytingarnar sem nú eru lagðar til eru að öllu leyti sambærilegar þeim sem gerðar voru á áðurnefndum lögum í fyrra. Þær snúast fyrst og fremst um þá tímafresti sem veittir eru starfsmannaleigum til að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um starfsemi sína og frest Vinnumálastofnunar til þess að fara yfir þau gögn áður en hún veitir staðfestingu þeirra.

Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA segir að kröfum núgildandi laga um tímafresti megi jafna við að starfsmannaleigur þurfi að sækja um leyfi fyrir fram til að geta hafið starfsemi hér á landi. Telur stofnunin að það feli í sér hindrun á frjálsum þjónustuviðskiptum á grundvelli 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 2. gr. gildandi laga um starfsmannaleigur er þeim sem vill veita slíka þjónustu hér á landi gert að tilkynna það til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemin hefst. Hér er lagt til að Vinnumálastofnun þurfi að berast tilkynning eigi síðar en sama dag og starfsemin hefst. Samhliða er lagt til að Vinnumálastofnun fái tvo virka daga til að fara yfir upplýsingarnar sem áskilið er að fylgi tilkynningunni. Skrifleg staðfesting Vinnumálastofnunar á því að öllum gögnum hafi verið skilað þarf því að liggja fyrir eigi síðar en tveimur dögum eftir að starfsemi leigunnar hefst en ekki áður en hún hefst líkt og í gildandi lögum.

Áskilið er að starfsmannaleiga sem veitir þjónustu á Íslandi samtals lengur en 10 virka daga á hverjum 12 mánuðum skuli hafa fulltrúa hér á landi. Eins og er þarf að tilkynna Vinnumálastofnun hver sá fulltrúi er átta virkum dögum áður en starfsemin hefst. Er lagt til að tilkynningin þurfi að berast í síðasta lagi samdægurs því að leigan hefji starfsemi sína.

Einnig er lögð til ný málsgrein sem áréttar að fulltrúi viðkomandi starfsmannaleigu geti verið einn af starfsmönnum hennar sem starfa hér á landi. Í þessu felst ekki efnisleg breyting frá gildandi lögum heldur einungis árétting.

Meðal þess sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við er ákvæði um að starfsmannaleigu sé óheimilt að veita þjónustu hér á landi hafi fyrirtækið látið hjá líða að tilkynna um fulltrúa sinn til Vinnumálastofnunar eða ef skipt hefur verið um fulltrúa. Telur Eftirlitsstofnunin að þetta brjóti gegn frjálsum þjónustuviðskiptum samkvæmt 36. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið og vísar til dóma Evrópudómstólsins í því sambandi. Hér er því lagt til að umrætt ákvæði sem er í 4. mgr. 3. gr. laganna verði fellt brott.

Hæstv. forseti. Setning laga um starfsmannaleigur árið 2005 byggði á því að nauðsynlegt þótti að setja slíkri starfsemi ákveðinn ramma með lágmarksreglum og eftirliti. Áhersla er lögð á að markmið laga um starfsmannaleigur haldist þrátt fyrir þær breytingar sem lagðar eru til í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Með þetta í huga er því lagt til að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að beita þvingunaraðgerðum láti starfsmannaleiga undir höfuð leggjast að tilkynna Vinnumálastofnun um fulltrúa sinn eða skipti á fulltrúa. Gert er ráð fyrir því að við lögin bætist ákvæði um dagsektir sem heimila Vinnumálastofnun að krefja hlutaðeigandi starfsmannaleigu um úrbætur innan hæfilegs frests að viðlögðum dagsektum sem geta numið allt að 100 þús. kr. á dag verði starfsmannaleigan ekki við þeim kröfum.

Auk framantalinna breytinga er lögð til orðalagsbreyting á b-lið 4. gr. laga um starfsmannaleigur sem fjallar um almannatryggingavernd starfsmanna sem starfa hjá starfsmannaleigu. Með breytingunni er kveðið skýrt á um að eingöngu sé verið að kanna hvort starfsmenn sem starfa hér á landi á vegum starfsmannaleigu njóti almannatryggingaverndar í heimaríki sínu. Markmið þessa ákvæðis er ekki að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi starfsmannaleiga hefji starfsemi hér á landi heldur er tilgangurinn að vekja athygli starfsmannaleigna og viðkomandi starfsmanns á því að sá síðarnefndi njóti ekki tryggingaverndar í þeim tilvikum sem það á við.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim breytingum á lögum um starfsmannaleigur sem lagðar eru til með frumvarpi þessu og legg til að því verði að loknum umræðum vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar og til 2. umr.