139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[16:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Frumvarpið er fyrst og fremst lagt fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við ákvæði gildandi laga um samlagningu starfstímabila foreldra sem flytjast milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig er í frumvarpinu lögð til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins sem kveður á um lengingu foreldraorlofs. Loks eru tillögur um úrbætur á gildandi lögum sem ætlað er að skýra og styrkja framkvæmd þeirra.

Ég mun nú gera grein fyrir helstu lagabreytingunum sem lagðar eru til með frumvarpinu. Fyrst kem ég að því sem snýr að athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við 11. mgr. 13. gr. laganna, en greinin fjallar um samlagningu starfstímabila foreldra sem flytjast á milli ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt gildandi lögum öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði eftir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Hafi foreldri verið starfsmaður eða sjálfstætt starfandi í einhverju þeirra ríkja sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er í gildandi lögum heimilt að leggja saman starfstímabilin og meta til fæðingarorlofsréttinda. Aftur á móti er sett það skilyrði að foreldri skuli hafa verið virkt á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuð ávinnslutímabilsins, eins og fína orðið er, svo til álita komi að leggja saman starfstímabil viðkomanda í öðru eða öðrum aðildarríkjum.

Eftirlitsstofnun EFTA gerir athugasemd við þetta og telur fortakslaust skilyrði um mánuð of langan tíma í þessu sambandi. Stofnunin telur mikilvægt að hafi foreldrar hafið störf á innlendum vinnumarkaði beri að meta hvert tilvik fyrir sig hvað varðar möguleikann á samlagningu starfstímabila í öðrum ríkjum. Í frumvarpinu er brugðist við þessum athugasemdum EFTA, meginreglan verður áfram sú að foreldri skuli hafa verið a.m.k. einn mánuð á innlendum vinnumarkaði áður en fæðingarorlof hefst, en lagt er til að sé um skemmri tíma að ræða skuli Vinnumálastofnun meta hvert tilvik fyrir sig út frá því hvort taka skuli tillit til starfstímabila foreldris í öðru aðildarríki.

Í frumvarpi þessu er einnig lagt til að foreldraorlof verði lengt um þrjár vikur, fari úr 13 vikum í fjóra mánuði, sem er í samræmi við tilskipun nr. 2010/18/EB, um framkvæmd endurskoðaðs rammasamnings um foreldraorlof. Ekki er gert ráð fyrir að aðildarríki innleiði þessa tilskipun fyrr en í síðasta lagi 8. mars 2012 og því er í frumvarpi þessu miðað við að lenging foreldraorlofs hér á landi eigi við um foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2012 eða síðar. Þar sem foreldrar fá ekki greitt fyrir það tímabil sem þeir nýta sér rétt sinn til foreldraorlofs mun lengingin ekki hafa áhrif á útgjöld ríkisins.

Hæstv. forseti. Efnislega eru þetta veigamestu breytingarnar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem ég hef getið um. Ég mun nú fara yfir aðrar þær breytingar á lögunum sem lagðar eru til í frumvarpinu en þær miða einkum að því að skýra og styrkja framkvæmd laganna.

Samkvæmt gildandi lögum er foreldrum heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar formleg ættleiðing hefur átt sér stað og öll gögn þar að lútandi liggja fyrir. Í tilvikum ættleiðinga á börnum frá öðrum ríkjum þar sem gert er ráð fyrir einhvers konar reynslutíma áður en gengið er frá skjölum hefur réttarstaða foreldra þótt óljós við framkvæmd laganna. Hér er því lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldrum sem ættleiða barn verði heimilt að hefja töku fæðingarorlofs þegar barnið kemur inn á heimilið þrátt fyrir að um sé að ræða fyrrnefndan reynslutíma og að formleg ættleiðing hafi ekki endanlega átt sér stað. Í þessum tilvikum þarf að liggja fyrir staðfesting þar til bærra aðila um að stefnt sé að formlegri ættleiðingu. Lagt er til að hið sama gildi þegar um er að ræða svokallaðan reynslutíma sem fyrirhugað er að leiði til varanlegs fósturs.

Ég árétta að hér er ekki um aukin réttindi að ræða heldur er einungis gert ráð fyrir að foreldrar geti í umræddum tilvikum ættleiðingar og varanlegs fósturs hafið töku fæðingarorlofs fyrr en gert er ráð fyrir í gildandi lögum.

Í frumvarpinu eru lagðar til ákveðnar breytingar sem ætlað er að skýra frekar þá reiknireglu sem lögin hafa að geyma og Fæðingarorlofssjóður hefur viðhaft í tengslum við útreikninga á greiðslum fyrir foreldra úr Fæðingarorlofssjóði út frá viðmiðunartekjum foreldra. Enn fremur er lagt til að lögfest verði nú framkvæmdaregla sem Fæðingarorlofssjóður hefur beitt varðandi það til hvaða viðmiðunartímabils skuli litið við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í tilvikum þar sem foreldri er með tekjur bæði sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi laganna. Þykir slíkt nauðsynlegt þar sem ekki er kveðið á um það í gildandi lögum hvernig fara skuli með slík tilvik, en í lögunum er hins vegar gert ráð fyrir sínu hvoru viðmiðunartímabilinu eftir því hvort viðkomandi foreldri er starfsmaður eða sjálfstætt starfandi í skilningi laganna.

Auk þessa er í frumvarpinu lagt til að skýrt verði kveðið á um hvað telst til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri ætlar að nýta sér rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks. Meðal annars er gert ráð fyrir að fái foreldri orlofslaun eða greiðslur vegna starfsloka geti það ekki nýtt sér rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks á sama tímabili.

Að lokum nefni ég að í gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í frumvarpi þessu er lagt til að hið sama skuli gilda þegar þungaðri konu er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að hætta atvinnuleit, hún fái greiddar atvinnuleysisbætur og sé þar með þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Ástæða þessa er sú að upp hafa komið tilvik þar sem þungaðar konur hafa ekki getað verið í virkri atvinnuleit vegna heilsufars og þar af leiðandi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum. Þar með hefur komið rof í ávinnslu þeirra til fæðingarorlofs sem hefur orðið til þess að þær hafa ekki heldur átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Að mati fjármálaráðuneytisins er áætlaður kostnaður vegna þessara breytinga um 10 millj. kr. á ári, en á undanförnum árum hafa greiðslur Fæðingarorlofssjóðs vegna veikinda mæðra á meðgöngu verið á bilinu 100–135 millj. kr.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem hér eru lagðar til. Eins og ég gat um í upphafi er frumvarpið einkum lagt fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við ákvæði gildandi laga sem varðar samlagningu starfstímabila foreldra sem flytjast milli ríkja sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig er í frumvarpinu lögð til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins um lengingu foreldraorlofs og loks eru tillögur um breytingar sem ætlað er að skýra og styrkja framkvæmd laganna.

Ég tel að þetta frumvarp feli í sér ýmiss konar réttarbætur sem mikilvægt er að festa í lög og vonast eftir góðum undirtektum þingsins, en vísa frumvarpinu að lokinni umræðu til umfjöllunar hv. félags- og tryggingamálanefndar og til 2. umr.