139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[16:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir þessa yfirferð. Mig langar að spyrja hann út í 14. gr. þar sem stendur m.a., með leyfi forseta:

„Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili“ o.s.frv.

Ég spyr: Á þetta við um foreldra sem eiga langveik börn fyrir, eru heima og sinna þeim vegna fötlunar þeirra eða langvarandi veikinda? Ef slík móðir verður þunguð á tímabilinu og eignast barn, missir hún þá greiðslur sem felast í því að annast þetta fatlaða barn og fer eingöngu á laun úr Fæðingarorlofssjóði? Ef þetta er rétt skýring bið ég hæstv. ráðherra að útskýra það.

Í öðru lagi stendur í sömu grein:

„Foreldri sem nýtur orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka …“

Segjum sem svo að starf hjá opinberri stofnun sé lagt niður og kona þar nýtur biðlauna samkvæmt lögum. Hafi hún verið í starfi fyrir 1997 á hún rétt á því, verði starf hennar lagt niður, að njóta biðlauna. Segjum sem svo að hún fari í fæðingarorlof á þessu 12 mánaða tímabili. Nýtur hún þá og getur lokið töku biðlauna sem eru 12 mánuðir og síðan hafið töku fæðingarorlofs? Eða skerðist sá tími sem konunni er heimilt að vera í fæðingarorlofi vegna þess að hún er á biðlaunum af því að starf hennar var lagt niður?

Ég óska eftir því að hæstv. velferðarráðherra útskýri frekar hvað felst í þessum tveimur síðustu málsgreinum 14. gr.