139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[16:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, bæði textinn sem hér birtist og sú umfjöllun sem er í þessu lagaumhverfi er býsna flókið. Það kann að vera að flækjustigið sé orðið of mikið. Það er þó þannig að þegar við förum utan og færum með okkur réttindi er mjög mikilvægt að það sé á hreinu hvaða réttindi fylgja okkur og að hve miklu leyti við eigum rétt á þjónustu frá því landi sem við búum í, annaðhvort á Norðurlöndunum eða innan EES-svæðisins. Þarna er verið að taka utan um það umhverfi þannig að það sé með skýrum hætti hægt að fjalla um hvaða réttur fylgir viðkomandi einstaklingum, hvernig um hann er fjallað og með hvaða hætti hægt sé að tryggja að menn njóti þess réttar sem gert er ráð fyrir óháð þjóðerni.

Ég kann í sjálfu sér ekki að svara því hvers vegna þetta foreldraorlof er almennt lítið notað. Ég hef ekki gert neina könnun á því og/eða fengið neinar upplýsingar um það. Það er mjög forvitnilegt og athyglisvert og að mörgu leyti ánægjulegt sem tengist fæðingarorlofinu hvað atvinnuþátttaka er mikil á Íslandi. Þrátt fyrir atvinnuleysi erum við með hvað mesta atvinnuþátttöku í Evrópu. Það segir okkur að fólk virðist sækja mjög í að vera á vinnumarkaði og velur þessa leið. Kannski er það líka vegna þess að við erum með afar gott kerfi í leikskólaþjónustu almennt í landinu, það getur haft áhrif á þetta.

Ég treysti sem sagt á að menn fari vel yfir þetta. Þarna er fyrst og fremst verið að reyna að skýra og skerpa ákveðin atriði sem hafa komið upp varðandi framkvæmdina annars vegar og hins vegar þessi EES-ákvæði þar sem verið er að tryggja rétt milli landa.