139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi nota þetta tækifæri til að gera stuttlega grein fyrir breytingartillögu sem er að finna á þskj. 1291 og er frá mér.

Það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, og hefur verið til umfjöllunar í hv. félags- og tryggingamálanefnd, lýtur að því að koma í veg fyrir að þeir sem nýta leiðsöguhunda sér til aðstoðar í daglegu lífi lendi í vandræðum í fjöleignarhúsum, og fái að halda þá. Þetta tengist máli sem kom upp í tengslum við einn þeirra fimm leiðsöguhunda sem hér eru á landinu og er sannarlega góðra gjalda vert og full ástæða til að þakka félags- og tryggingamálanefnd fyrir að hafa afgreitt það með þeim hætti sem hún hefur gert.

Þannig háttar til að þegar fjöleignarhúsalögin voru sett var upphaflega gert ráð fyrir því að einfaldur meiri hluti í húsfélagi gæti sett reglur um gæludýrahald í fjöleignarhúsi. Við meðferð þingsins varð sú breyting á þessu ákvæði að nú þarf samþykki allra íbúa í hverju fjöleignarhúsi fyrir gæludýrahaldi og reglum þar að lútandi. Það er skoðun mín að hér hafi verið gengið of langt í breytingum. Það geta vissulega verið rök fyrir því að góð samstaða þurfi að vera í húsfélagi um reglurnar en ég hygg að of langt sé gengið með því að einn íbúi í stóru fjölbýlishúsi geti haft neitunarvald gagnvart öllum öðrum sem þar búa í þessum málum. Þess vegna hef ég lagt til að farið sé bil beggja svo að segja, þ.e. að aukinn meiri hluti í húsfélagi geti gert samþykkt um gæludýrahald og reglur þar að lútandi.

Þar er síðan gert ráð fyrir því að sömu ákvæði gildi um þá sem eiga við bráðaofnæmi að stríða eins og nefndin hefur gert ráð fyrir varðandi leiðsöguhundana. Það er sérstakt mál sem kallar á sérstaka úrlausn vegna þess að bráðaofnæmi er alvarlegt mál sem taka verður fullt tillit til í þessum efnum. Að því slepptu eigi almennt að mega treysta því að aukinn meiri hluti í húsfélagi setji reglur sem samstaða sé um hjá þorra íbúa og þannig sé gætt meðalhófs í þessum efnum en einhver einn geti ekki beitt alla aðra í húseigninni neitunarvaldi.