139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur svarið. Kærunefnd fjöleignarhúsamála á þá að skera úr um málið ef svo óheppilega vildi til að slíkt dæmi kæmi upp. Kærunefnd fjöleignarhúsamála á þá að kveða upp úrskurð um annars vegar læknisfræðilega stöðu einstaklings sem hefur hastarlegt ofnæmi og hins vegar fötlun einstaklings sem þarf á hjálparhundi að halda.

Virðulegur forseti. Ég veit að þetta kann að þykja langsótt og ég ítreka að ég styð það að þeir sem vegna fötlunar sinnar þurfa á leiðsöguhundi að halda hafi rétt til þess. En við þurfum líka að virða hinn einstaklinginn sem í hlut á ef slík staða kæmi upp, einstakling sem gæti þá staðið frammi fyrir því að þurfa að fara úr því húsnæði sem hann hefur kosið að búa í.

Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að mér finnst sérkennilegt að senda slíkt til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Ég velti því fyrir mér sem verið var að ræða hér í dag, um réttindagæslu fatlaðra, hvort einhverju mætti breyta í því frumvarpi og að fleiri aðilar þyrftu að koma að málum ef úrskurða þyrfti í jafnsértæku máli og slíkt mál gæti orðið komi það upp einhvers staðar á landinu.