139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem upp til að fjalla um breytingartillöguna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum. Ég vil sérstaklega af því tilefni fagna breytingartillögu frá hv. þm. Helga Hjörvar og lýsa yfir fullum stuðningi við hana.

Mér finnst það stundum hafa gleymst svolítið í umræðunni undanfarin ár um gæludýrahald í fjöleignarhúsum að það séu mannréttindi að eiga og halda gæludýr þó að sjálfsögðu með þeim fyrirvörum sem setja þarf vegna heilsu nágranna og hugsanlegs ónæðis og annars. Við skulum ekki gleyma því að gæludýr, sérstaklega hundar og í mörgum tilvikum kettir, eru fjölskylduvinir og verða mjög hjartfólgnir sínum eigendum. Í sumum tilvikum koma þessi blessuðu dýr í stað barna og oft í stað vina, þau eru félagsskapur gömlu fólki og þau eru aðstoð við fatlaða, ekki síst sérþjálfaðir blindrahundar og hundar sem hægt er að þjálfa til þess að aðstoða hreyfihamlað fólk.

Auðvitað er sjálfsagt að taka tillit til þarfa og mismunandi afstöðu fólks. Það er til fólk sem er með dýraofnæmi og það er til fólk sem er hrætt við hunda og ketti og með alls kyns fóbíur, og að sjálfsögðu þarf að reyna að taka tillit til slíkra þátta. En við vitum líka af leiðindadæmum sem komið hafa upp og orðið opinber í umræðunni, að oft er ákveðin stífni og óbilgirni, nágrannaóbilgirni, sem veldur því að gamall maður getur ekki haft hundinn sinn eftir að hann neyðist til að flytja í kjallaraíbúð í fjölbýlishúsi eða að fötluð manneskja á þess ekki kost að hafa hjá sér sérþjálfaðan hund.

Ég tel að þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram séu mjög til bóta. Þær virða rétt og meirihlutavilja í fjöleignarhúsum um leið og þær engu að síður auka réttindi þeirra sem kjósa og vilja hafa og halda gæludýr. Eins og ég sagði ég lít svo á að þetta sé að mörgu leyti mannréttindamál og tillagan sé til þess fallin að virða sjónarmið beggja aðila og þó meira og betur meirihlutaviljans í hverju fjölbýlishúsi eins og tillagan gerir ráð fyrir. Ég fagna þessu og mun greiða þessari tillögu atkvæði mitt þegar hún kemur til atkvæða.