139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[17:29]
Horfa

Eva Magnúsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er aðallega tvennt sem ég ætla að fjalla um hér í dag, annars vegar um reglur um flutning á myndefni og hins vegar um samkeppni á auglýsingamarkaði.

Frumvarp til laga um fjölmiðla sem nú er til umræðu var upphaflega lagt fram á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og var lagt fram að nýju með nokkrum breytingum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var bent á mikilvægi þess að koma á faglegu eftirliti með fjölmiðlum. Markmiðið með því væri að tryggja að þeir sinntu af ábyrgð hlutverki sínu í lýðræðisríki með almannahagsmuni að leiðarljósi. Viðbrögð löggjafans voru að setja á laggirnar stjórnsýslunefnd til að sinna þessu hlutverki.

Virðulegi forseti. Mikil gagnrýni hefur komið fram á valdsvið fjölmiðlanefndar, að það sé of vítt og illa skilgreint. Samkvæmt frumvarpinu er ekki hægt að skjóta ákvörðunum fjölmiðlanefndar til annarra stjórnvalda. Auk þess að taka fyrir þau mál sem til hennar er skotið getur nefndin tekið upp mál að eigin frumkvæði og hefur hún sérstaka rannsóknarheimild. Í krafti þess getur hún krafið fjölmiðla um gögn vegna ætlaðra brota gegn fjölmiðlalögum.

Í VII. kafla í nýju fjölmiðlafrumvarpi er fjallað um reglur um flutning myndefnis. Þar er talað um flutningsskyldu og flutningsrétt á myndefni. Þessar greinar eru óljósar og ég ætla að benda á að í 55.–57. gr. laga um fjarskipti er líka fjallað um flutning á hljóðvarps- og sjónvarpsefni.

Í nefndaráliti minni hlutans í menntamálanefnd kemur fram að minni hlutinn telur nauðsynlegt að huga að því hvort ekki sé skynsamlegra að binda reglur um hljóð- og myndmiðla samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins í lög með breytingum á lögum nr. 81/2003, sem eru lög um fjarskipti, frekar en með rammalögum um fjölmiðla. Að minnsta kosti þarf að fara fram umræða um það. Það er of óljóst hvert hlutverk fjölmiðlanefndar er í þessu samhengi og hvenær leitað er til Póst- og fjarskiptastofnunar, hver í raun er eftirlitsaðilinn. Að mati nefndarmanna minni hlutans skarast hlutverk fjölmiðlanefndar við aðrar stofnanir, m.a. Neytendastofu og Póst- og fjarskiptastofnun. Eftirlitsaðilar dreifiveitna eru í öðru samhengi undir eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar og fyrirtækin eru vön að starfa innan ramma þeirra, en það getur skapað réttaróvissu hvor stofnunin beri eftirlitsskylduna.

Öll skynsamleg rök hníga að því að tryggja eðlilega og sanngjarna samkeppni á fjölmiðlamarkaði sem og á öðrum mörkuðum. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt áherslu á það í mörgum málum. Engin tilraun er gerð í fjölmiðlafrumvarpinu til þess að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla og fremur er þrengt að starfsemi þeirra.

Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að gera verður alvarlega athugasemd við að lagt sé fram frumvarp til laga um rammalöggjöf um fjölmiðla án þess að með nokkrum hætti sé tekið á málefnum Ríkisútvarpsins. Einkarekin fjölmiðlafyrirtæki, eins og Skjár einn og Stöð 2, hafa þurft að berjast fyrir tilvist sinni í erfiðu rekstrarumhverfi í ósanngjarnri samkeppni. Eina fjölmiðlafyrirtækið sem heldur velli í kreppunni er Ríkisútvarpið sem fjármagnar sig með afnota- og þjónustugjöldum, 3,5 milljörðum, og auglýsingatekjum sem nema 1,5 milljörðum. Með forskoti í afnotagjöldum fær Ríkisútvarpið að keppa við einkarekin fyrirtæki innan sömu greinar. Þó að sumir segi að rekstur RÚV sé erfiður eru hin fjölmiðlafyrirtækin enn þá verr stödd vegna þeirrar yfirburðastöðu sem RÚV hefur á auglýsingamarkaði.

Í nefndaráliti minni hlutans um frumvarpið kemur m.a. fram að í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpið komi fram hörð gagnrýni á að ekki skuli tekið á samkeppnishömlum á fjölmiðlamarkaði sem eru afleiðing af stöðu Ríkisútvarpsins. Vitnað er til álits eftirlitsins nr. 4/2008, um samkeppnishömlur sem stafa af stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði fyrir sölu auglýsinga í ljósvakamiðlum. Þar kemur m.a. fram að Ríkisútvarpið hafi boðið yfir 80% afslátt af listaverði.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sérstaklega bent á að undirboð fyrirtækja sem veita útvarpsþjónustu í almannaþágu geti ekki samræmst hlutverki þeirra og mundi undir öllum kringumstæðum hafa áhrif á viðskiptakjör á markaðnum og samkeppni sem færi gegn almannahagsmunum. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er því einföld:

„Telja verður því að þessi háttsemi RÚV feli ekki í sér sanngjarna samkeppni í skilningi EES/EB-samkeppnisréttar.“

Stjórnvöld keppast við að skekkja ýmislegt í þjóðfélaginu. Þau auka skattheimtu á Íslendinga almennt, nota skattféð til að standa undir rekstri ríkisfjölmiðils en virðist skorta kjark til að gera það sem rétt er og draga ríkið út af sjónvarpsauglýsingamarkaði. Það er hjákátlegt að leggja fram frumvarp sem tekur ekki á yfirburðastöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Það þarf að endurskoða samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði á Íslandi til að sanngjörn samkeppni gildi í rekstri sjónvarpsstöðva.

Í byrjun desember 2008 lagði hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fram frumvarp á Alþingi þar sem hún ætlaði að taka mikilvægt skref í átt að réttlátri samkeppni á fjölmiðlamarkaði og takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í frumvarpinu var mikil von, þar kom fram skýr pólitískur vilji til þess að leiðrétta samkeppnisumhverfi einkarekinna sjónvarpsstöðva. Það frumvarp var skref í rétta átt.

Menntamálanefnd Alþingis treysti sér ekki til að afgreiða frumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Ástæðan sem gefin var upp í fjölmiðlum var tvíþætt, annars vegar að fjöldi athugasemda hefði borist, m.a. frá kvikmyndagerðarmönnum, auglýsendum og auglýsingagerðarmönnum. Hins vegar var gefin upp sú afstaða að óskynsamlegt væri að setja takmörk á ríkisfjölmiðilinn á auglýsingamarkaði nema reglur um eignarhald á fjölmiðlum væru settar samhliða.

Starfsmenn menntamálaráðuneytisins hafa unnið að því að skoða möguleika á takmörkun á umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði frá 2008 — og hver er niðurstaðan? Ég vona að í framtíðinni verði á Íslandi fjölbreytt fjölmiðlaflóra og að eignarhald verði dreift. Skilyrði fyrir því að það geti gerst er sanngjarnt samkeppnisumhverfi. Í því eiga hæfileikar stjórnenda sjónvarpsstöðvanna að ráða velgengninni. Enn og aftur á það að skipta mestu máli hvað lagt er af mörkum til dagskrárgerðar. Til að fá fjárfesta að borðinu þarf rekstrargrundvöllur fjölmiðla að vera traustur og samkeppnin sanngjörn. Ekkert einkarekið fyrirtæki getur keppt við ríkisfyrirtæki sem fær árlega 3 þús. milljónir í forgjöf frá skattgreiðendum — hvað sem dagskrárefnið er gott.