139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

grunngerð landupplýsinga.

121. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hv. formanns umhverfisnefndar, að um málið hefði náðst prýðileg sátt í umhverfisnefnd eftir ágæta vinnu. Það er rétt sem fram kom í máli hv. formanns, að ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum stjórnarandstöðuflokka í nefndinni árituðum nefndarálitið með fyrirvara. Ég vildi geta þess að ástæða fyrirvarans var kannski fyrst og fremst sú að okkur þótti ekki nægilega skýrt hvaða kostnaður mundi hljótast af lögfestingu þessa frumvarps, hvernig hann mundi falla til og hverjir ættu að bera hann. Það veldur því þó ekki að við leggjumst gegn frumvarpinu heldur undirrituðum við nefndarálitið með fyrirvara út af þeim þætti. Ég vil nota tækifærið til að halda því til haga.

Ég tek trúanlegar upplýsingar um að ekki verði um neinn gríðarlegan kostnað að ræða. Ég tel samt fullvíst að hann verði nokkur og hefði talið að skýrari upplýsingar í þeim efnum hefðu þurft að liggja fyrir þegar umhverfisráðuneytið kom með málið inn í þingið.