139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni.

333. mál
[17:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og í málinu sem rætt var á undan undirritaði ég nefndarálitið með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur einnig að kostnaði. Nú liggur auðvitað fyrir, eins og hv. formaður umhverfisnefndar greindi frá í ræðu sinni, að umhverfisráðuneytið hyggst beita sér fyrir fjárveitingum til þess að mæta auknum kostnaði hjá Umhverfisstofnun og allt gott um það að segja. Einhver kostnaður kann að falla á sveitarfélög. Að einhverju leyti eru verkefnin sem frumvarpið felur í sér þegar til staðar þannig að það ætti ekki endilega að verða svo mikill viðbótarkostnaður. En það verður líka að horfa til þess að ákveðinn kostnaður getur orðið hjá fyrirtækjum sem framleiða eða selja vörur sem um ræðir. Það er kostnaður sem rétt er að vera meðvitaður um.

Ég held að miðað við innleiðingu á alþjóðlegum reglum verði ekki hjá því komist að til kostnaðar komi þannig að athugasemd mín lýtur ekki að því að hér sé um að ræða einhverja óhæfilega tilhneigingu til að leggja álögur á fyrirtæki sem síðar geta lent á neytendum, heldur vildi ég nota tækifærið með því að setja bæði fyrirvara í nefndarálitið og eins með því að taka til máls í dag til að benda á að um er að ræða kostnað sem rétt er að allir aðilar, þingmenn og aðrir, séu meðvitaðir um.

Ég vildi hins vegar skjóta því atriði að í umræðunni að umhverfisráðuneytið sem og önnur ráðuneyti, trúlega öll, mættu vera meðvitaðri um það við samningu og framlagningu frumvarpa hvaða kostnaður kunni að koma til hjá öðrum aðilum en ríkinu verði frumvörpin að lögum. Nú gilda ákveðnar reglur eins og að fjárlagaskrifstofu ber að meta kostnað fyrir ríkissjóð, en í mörgum tilvikum er um að ræða kostnað sem fellur á aðra aðila í samfélaginu og þá held ég að ráðuneyti þurfi almennt að vera betur á verði og vinna hugsanlega heimavinnuna aðeins betur til að það liggi skýrar fyrir í upphafi hvaða kostnað má ætla að aðrir aðilar í samfélaginu þurfi að bera vegna framlagningar og samþykktar einstakra frumvarpa.