139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni.

333. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir orð hv. þingmanns um kostnaðinn. Þetta er almennur vandi eins og hann rakti og við þurfum ekki að beina spjótum okkar sérstaklega að umhverfisráðuneytinu.

Það er ekki nógu góð grein gerð fyrir kostnaðarþættinum í þeim frumvörpum og þingmálum sem hingað koma. Það er kannski vegna þess að menn kunna ekki að meta hann. Það er ekki lagaskylda að meta kostnað nema þann kostnað sem fellur á ríkið. Það er gert á fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem maður finnur að ráðuneyti, starfsmenn og ráðherrar, eru dauðhrædd við vegna þess að álit frá þeirri skrifstofu verður þingmönnum oft tilefni hvassrar gagnrýni. Kannski er það vegna þeirrar gagnrýni sem ráðuneytisstarfsmenn og ráðherrar eru feimnir við að rekja þann kostnað sem á aðra fellur þrátt fyrir sérstakt ákvæði í þingsköpum um kostnað fyrir sveitarfélög, sem ég man satt að segja ekki eftir að hafi verið virkjað í frumvörpum og kannski er það okkur þingmönnum að kenna. Síðan væri æskilegt að fá kostnaðarmat fyrir fyrirtæki, almenning og stofnanir sem þurfa að vinna eftir lögunum. En það þyrfti þá að fylgja því að við á þingi, í nefndum og í umræðu tækjum slíku kostnaðarmati af heilbrigðri skynsemi og án þess að nota slíkt mat til að hakka þingmálið í spað eins og flytjendur og starfsmenn þeirra eru yfirleitt hræddir um að verði gert.