139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni.

333. mál
[17:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og oft áður erum við hv. formaður umhverfisnefndar sammála í þessum efnum. Það er mikilvægt og ætti í rauninni að vera reglulegur þáttur í undirbúningi allra lagafrumvarpa að leggja mat á þá þætti sem við höfum rætt um. Raunar hygg ég að í handbók sem gefin var út fyrir fáeinum árum í samstarfi Stjórnarráðsins og þingsins hafi verið kveðið á um að einhvers konar mat af þessu tagi færi fram áður en frumvörp væru lögð fram. Í þeirri handbók eru auðvitað ekki bindandi tilmæli, ákvarðanir eða neitt sem hefur lagagildi. Bókin er hins vegar gagnleg og mætti vera ofar í bunkum á borðum ráðuneytisstarfsmanna og ráðherra þegar frumvörp eru undirbúin.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi varðandi sveitarfélögin, að gert sé ráð fyrir því að mat á kostnaði sveitarfélaga fari fram en ákvæðið hafi lítt verið virkjað. Auðvitað hefur þetta verið gert í störfum þingnefnda eins og við þekkjum mætavel í umhverfisnefnd. Við nefndarmenn höfum bæði fengi í hendur upplýsingar frá sveitarfélögum og kallað eftir upplýsingum sem varða þessa þætti, en óneitanlega væri hagræði að því að kostnaðarmat kæmi fram um leið og mál eru lögð fram í þinginu.

Ég verð hins vegar að nefna annað eða önnur ákvæði sem hafa eiginlega rykfallið síðustu árin sem væri hægt að nýta í ákveðnum tilvikum, í ákveðnum frumvörpum. Það er þegar frumvörp varða opinberar eftirlitsreglur. Þá eru í gildi lög þar sem gert er ráð fyrir (Forseti hringir.) ákveðnu mati af þessu tagi en ákvæði þeirra laga hafa harla lítið verið nýtt undanfarin ár.