139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir yfirferð hennar á lokafjárlögum. Okkur greinir ekki mikið á um vinnubrögðin en ég ætla samt aðeins að koma inn á þau við hv. þingmann og fá að spyrja um það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans um vinnubrögð við ríkisreikning og lokafjárlögin. Þetta er í raun og veru eitt og sama plaggið, lokafjárlög eru bara þingskjal til að hægt sé að samþykkja ríkisreikninginn. Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að við þurfum að breyta þessu og flýta þeim breytingum, enda ástæða til, nú ræðum við lokafjárlög fyrir árið 2009.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það sjónarmið mitt að fjárlaganefnd gefi bara út skýr fyrirmæli um að við ríkisreikningi verði ekki tekið af hálfu nefndarinnar nema lokafjárlög fylgi með. Það verði ekki flóknara en það. Það er búið að ræða þetta margoft en því miður hefur ekki orðið nein breyting á.

Í öðru lagi, sem tengist kannski þessari spurningu, hefur starfshópur verið starfandi í fjárlaganefnd sem á að endurskoða fjárlagagerðina. Hann hefur því miður ekki fundað nógu oft að mínu mati og er ekki kominn eins langt í þeirri vinnu og ég hefði viljað. Ég vil því spyrja hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér að mjög mikilvægt sé að sá starfshópur fari að herða vinnuna og komast framar í tímann svo við getum breytt þessu fyrir næsta fjárlagaár og ákveðið hvernig við ætlum að haga eftirliti með fjárlögum þannig að við séum ekki, eins og núna í þessu tilfelli, að samþykkja lokafjárlög fyrir árið 2009 á miðju ári 2011. Í raun og veru er hægt að segja sem svo að hluti af lokafjárlögum 2009, eins og hefur verið í gegnum tíðina, er í raun og veru ekkert annað en síðbúin fjáraukalög.