139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að vinnulaginu þarf að breyta. Ég tók með mér lista yfir hvenær lokafjárlög hafa verið samþykkt frá 1999. Þá kemur í ljós að aðeins árið 2005 hefur styttri tími liðið frá því að árinu lýkur þar til að lokafjárlög eru samþykkt en lokafjárlög ársins 2005 voru samþykkt 16. mars 2007. Það er því alveg ljóst að vinnulagið hefur verið svona allt of lengi og í rauninni er ekki farið eftir lögunum eins og hv. þingmaður benti á áðan.

Mér finnst mikilvægt að fjárlaganefnd leggi sitt af mörkum til að breyta þessu. Hvort við eigum að gefa út einhver fyrirmæli og segja: Við tökum ekki við lokafjárlögum eða ríkisreikningi alveg sama hvað á dynur, vil ég ekki segja neitt um á þessari stundu. Hins vegar er ég tilbúin til að vinna að þessu verki.

Ég get hins vegar skilið það, þó að þessi krafa hafi verið gerð í fjárlaganefnd í fyrra, að starfsmennirnir sem unnu að þessu verki og voru á fullu við að reyna að bjarga fjármálakerfi landsins á árinu 2009, hafi notað hefðbundin vinnubrögð en ekki tekið upp breytt vinnubrögð. En núna ætti að vera tækifæri til að breyta þessu.

Ég er líka sammála því að hópurinn sem vinnur að framkvæmd fjárlaga og starfar innan fjárlaganefndar þarf að leggja sig fram. Ég vil þó benda á að frá því í október í fyrra höfum við verið önnum kafin, fyrst við fjárlagagerðina og síðan við Icesave-lögin, en við höfum tíma til þess núna.